Handbolti

Rhein-Neckar Löwen tapaði grannaslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen í kvöld.
Ólafur Stefánsson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen í kvöld. Nordic Photos / Bongarts
Göppingen vann í kvöld góðan sigur á Íslendingaliðinu Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, 35-31. Um grannaslag var að ræða en bæði lið eru Baden-Württemberg, einu af sextán sambandslöndum Þýskalands.

Leikmenn Löwen voru greinilega dauðþreyttir í leiknum og áttu í raun aldrei möguleika gegn heimamönnum sem byrjuðu mjög vel og voru komnir með átta marka forystu eftir stundarfjórðung, 15-7.

Staðan í hálfleik var 23-13 en lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar reyndu að bíta frá sér í síðari hálfleik. Varnarleikurinn batnaði eftir því sem á leið en markamunurinn var einfaldlega of mikill. Löwen náði að minnka muninn í fjögur mörk þegar um níu mínútur voru eftir en meiri varð spennan ekki.

Íslendingarnir í Löwen skoruðu öll sín mörk í síðari hálfleik í kvöld. Ólafur Stefánsson skoraði þrjú mörk, Róbert Gunnarsson tvö og Guðjón Valur Sigurðsson eitt.

Löwen er nú átta stigum á eftir toppliði Hamburg í deildinni og verður að teljast afar ólíklegt að liðið eigi möguleika á að blanda sér í titilbaráttuna af einhverri alvöru þegar deildin hefst eftir að HM í Svíþjóð lýkur.

Bæði lið eru með 28 stig í 4.-5. sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×