Innlent

ECA svarar ekki spurningum fréttastofu

Erla Hlynsdóttir skrifar

Forsvarsmenn ECA Program Limited svara því ekki hvort þeir séu þegar farnir að ráða inn fólk til að starfa á fyrirhugaðri starfsstöð hér á landi. Blaðamaður Vísis sendi fyrirspurn til ECA þann 3. september, fyrir tíu dögum síðan, þar sem meðal annars var spurst fyrir um mannaráðningar fyrirtækisins.

Vísir fékk ábendingu um að ECA væri byrjað að leita að fólki til að starfa hjá sér á Íslandi og hafði því samband í gegn um netfang sem gefið er upp á vef fyrirtækisins.

Auk þess spurði blaðamaður hverjir væru eigendur ECA, hvernig fyrirtækið væri fjármagnað, hvaða starfsreynslu forsvarsmenn þess hefðu og hvort ECA hefði gert þjónustusamninga við fyrirtæki hér á landi vegna fyrirhugaðrar starfsemi. Einnig voru forsvarsmenn beðnir um að staðfesta það sem íslensk yfirvöld hafa gefið út um að 150 til 200 störf geti skapast komi ECA hingað til lands.

Engum þessara spurninga hefur fengist svar við frá ECA.

Vísir greindi frá því 3. september að á vef ECA birtist frétt þess efnis að þar á bæ væri litið svo á að íslensk yfirvöld hefðu veitt fyrirtækinu fullnaðarleyfi fyrir starfsemi hér á landi. Daginn áður fóru fram ráðherraskipti í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu þar sem Ögmundur Jónasson tók við af Kristjáni L. Möller. Kristján hafði áður en hann lét af embætti falið Flugmálastjórn að hefja undirbúning að skráningu flugvéla ECA hér á landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eftir að fréttin birtist á vef ECA sendi ráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem ítrekað var að engin leyfi hafi verið veitt vegna skráningarinnar og málið enn í ferli. Engu að síður stendur fréttin enn á vef ECA.

Tengdar fréttir:

ECA lítur svo á að fullnaðarleyfi hafi verið veitt

Ekkert samkomulag um skráningu herþotna á Íslandi

 Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.