Innlent

Missti af jarðarför föður síns vegna lagaflækja

Jóel Færseth Einarsson kemur brátt heim.
Jóel Færseth Einarsson kemur brátt heim.

„Sigurinn er ekki í höfn. Jóel er enn þá vegabréfalaus," segir Einar Þór Færseth, sem er fastur ásamt konu sinni, Helgu Sveinsdóttur, úti í Indlandi, en fram kom í Fréttablaðinu síðustu helgi að þau hjónin eignuðust drenginn Jóel Færseth með aðstoð staðgöngumóður.

Þau lentu í miklum vandræðum með að fá drenginn viðurkenndan sem íslenskan ríkisborgara og komust því ekki með hann heim til Íslands. Alþingi hjó svo á hnútinn er það veitti Jóel íslenskan ríkisborgararétt í vikunni. Það hefur þó ekki nægt því Jóel er enn vegabréfalaus.

Hjónin hafa verið í Indlandi í tvo mánuði. Einar vonaðist til þess að geta komist heim fyrir gærdaginn en faðir hans lést og var jarðsunginn í gær. Einar er verulega vonsvikin yfir þeim flækjum sem fjölskyldan hefur þolað undanfarið. Honum þykir sárt að hafa ekki komist í jarðarför föður síns.

„Við erum sár og reið yfir þessu öllu," segir hann um drátt málsins en þau vonast til þess að geta komist heim á milli jóla og nýárs. Það sé þó ekki útséð.

Aðspurður segir Einar að fjölskyldan hafi það gott. Öllum heilsist vel. Þrautagangan sé lýjandi enda gerir hann sér ekki fyllilega grein fyrir því hversvegna þessi mikli dráttur hefur orðið á málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×