Innlent

Ein kona í sex manna hópi

Kristín Ástgeirsdóttir
Kristín Ástgeirsdóttir
Jafnréttisstofa mun senda fjármálaráðherra erindi og óska eftir rökstuðningi hans fyrir því að ekki sé gætt að kynjahlutföllum við skipan í starfshóp sem fjalla á um breytingar á skattkerfinu. Í starfshópinn voru skipaðir fimm karlmenn og ein kona.

„Það er algerlega skýrt í lögum að hlutur hvors kyns skal vera að lágmarki 40 prósent, nema alveg sérstök rök séu fyrir því,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

Slík rök gætu til dæmis verið þau að ekki finnist sérfræðingar af báðum kynjum í ákveðnum málaflokkum. Það geti þó varla átt við í þessu máli. Í sex manna starfshópi ættu að sitja þrjár konur og þrír karlar svo farið sé að lögum.

„Að sjálfsögðu á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi,“ segir Kristín. Hún ætlar að skrifa fjármálaráðherra bréf þar sem farið verður fram á skýringar eða að skipað verði á ný í starfshópinn.

Fjármálaráðherra skipaði tvo af sex fulltrúum í starfshópnum, karl og konu. Forsætisráðherra, félagsmálaráðherra, efnahagsráðherra og samgönguráðherra skipuðu einn fulltrúa hver, allt karlmenn.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að ekki sé búið að ganga endanlega frá skipan starfshópsins, þrátt fyrir að tilkynning þar um hafi verið send fjölmiðlum. Þegar í ljós hafi komið hvernig kynjahlutföllin væru hafi verið gengið í að fá nýjar tilnefningar frá einhverjum af ráðuneytunum. - bj, kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×