Fastir pennar

Eftir hverju er að bíða?

Ólafur Stephensen skrifar

Einn fylgifiskur sumarsins og ferðamannavertíðarinnar eru árvissar fréttir um að nú séu ekki til nógir peningar til að tryggja landvörzlu við hina eða þessa náttúruperluna. Engir peningar séu heldur til fyrir stígagerð eða skiltum. Ferðamenn troði niður viðkvæman gróður, fari sjálfum sér að voða og svo framvegis.

Frétt af þessu tagi var í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Engin varzla er á hverasvæðinu í Námaskarði þótt full þörf sé á því. Bullandi heitir hverirnir eru hættulegir ferðamönnum. Fulltrúi landeigenda segir að nú sé bara tvennt að gera: loka svæðinu eða rukka ferðamenn um aðgangseyri, sem sé skárri kosturinn.

Einhverra hluta vegna fer allt á annan endann á Íslandi ef nefnt er að taka gjald af ferðamönnum, sem skoða náttúruperlur landsins. Ferðaþjónustan rís upp á afturlappirnar og segir að það myndi fæla útlenda ferðamenn frá landinu. Og svo halda einhverjir því fram að það sé meiriháttar hneyksli að rukka Íslendinga um aðgang að náttúruperlum í almannaeigu. Vegna þess að þær séu þjóðareign, eigi að vera ókeypis að skoða þær.

Mikið er bogið við þessa röksemdafærslu. Þeir, sem hafa ferðazt til útlanda, vita að þar er alsiða að innheimta aðgangseyri að ferðamannastöðum, hvort sem það eru gamlar kóngshallir, þjóðgarðar eða náttúruminjar. Tekjurnar eru svo notaðar til viðhalds og til að tryggja aðgang almennings.

Svo dæmi séu tekin, kostar tólf evrur að skoða Akrópólishæð í Aþenu (um 1.900 krónur) og 15,50 evrur að skoða Kólosseum-hringleikahúsið í Róm. Aðgangseyrir að Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum er 25 dollarar fyrir fjölskyldu á einkabíl og það kostar 33 dollara (4.100 krónur) fyrir fullorðna að skoða Níagara-fossana á landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Tilboðsverð á miða, sem gildir bæði í Amalíuborgarhöll og Rósenborgarhöll í Kaupmannahöfn, er 100 danskar krónur (2.100 íslenzkar).

Gjöld af þessu tagi fæla enga ferðamenn frá löndunum, sem um ræðir. Gjaldtaka fyrir aðgang að þjóðareign er heldur ekkert einsdæmi. Til dæmis borgar fullorðið fólk 1.000 krónur fyrir að skoða Þjóðminjasafnið. Af hverju ætti eitthvað annað að gilda um náttúrugersemar undir beru lofti en sögulegar gersemar undir þaki?

Fyrir nokkrum árum voru leiðsögumenn grátbólgnir yfir því að fjárveitingar Umhverfisstofnunar hrykkju bara fyrir því að ráða hálfan landvörð á Gullfossi og annan helming á Geysi, tvo mánuði á ári. Þá var reiknað út að væru ferðamenn sem heimsækja þessa tvo staði rukkaðir um 200 krónur hver, ætti stofnunin fyrir launum 40 landvarða.

Staðreyndin er sú, að ferðamenn kippa sér ekki upp við að þurfa að greiða fáeinar evrur fyrir aðgang að eftirsóknarverðum stöðum. Íslendingar ekki heldur, enda myndu væntanlega svipaðar reglur gilda um afslátt fyrir börn, námsmenn, aldraða og öryrkja og í Þjóðminjasafninu og öðrum opinberum söfnum. Þeir myndu borga, sem hafa efni á því.

Og eftir hverju er þá að bíða?







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×