Innlent

Jóhanna vill fá svör frá Gylfa - Ráðherrar telja hann í vondum málum

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Forsætisráðherra mun ekki ræða við fjölmiðla um stöðu Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra fyrr en Gylfi sjálfur útskýrir mál sitt fyrir henni, samkvæmt upplýsingum úr stjórnarráðinu.

Ráðherrar hafa í dag sagt í trúnaði að þeir meti stöðu Gylfa sem mjög erfiða og Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur sagði í fréttum RÚV í gær að staða hans hefði veikst.

Álitaefnin, sem telja má að Jóhanna Sigurðardóttir vilji vita um, eru meðal annars afdrif gagna um gengistryggingu lána sem embættismenn Gylfa höfðu undir höndum í maí og júní 2009, en hann segist ekki hafa vitað af. Samkvæmt gögnunum eru gengistryggð krónulán ólögmæt. Eins og fram hefur komið, svo sem í Fréttablaðinu í dag, voru þessi gögn kynnt fyrir Gylfa 24. júní sama árs.

Svar Gylfa við fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á Alþingi þykir einnig þarfnast nánari útskýringa. Ragnheiður spurði þann 1. júlí 2009 um gengistryggð krónulán, en Gylfi svaraði með því að tala um erlend lán og sagði þau lögmæt og að lögfræðingar víða í stjórnsýslunni hefðu skoðað það mál, þótt dómstólar þyrftu að skera úr um þetta „telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt". Með þessu svari, að mati Gunnars Helga, afvegaleiddi Gylfi þingið.

Þingmenn Hreyfingarinnar skoruðu á Gylfa í dag að segja af sér, en bera fram vantrauststillögu á hann ella. Gylfi Magnússon er úti á landi, utan símasambands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×