Innlent

Leitar lóðar niður við höfn

Fyrirtækið Glacier Water leitar nú lóðar við Hafnarfjarðarhöfn. Það hefur augastað á lóð við Hvaleyrarhöfn sem Lýsing er með í höndunum og er í viðræðum um kaup á henni. Lóðin er úr þrotabúi. Þar hyggst fyrirtækið reisa átöppunarverksmiðju fyrir vatn, þar sem um fimmtíu störf gætu orðið til.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að samningur liggi fyrir við fyrirtækið um að tryggja því vatn í átöppunarverksmiðjuna. Fyrsta skrefið sé að fyrirtækið tryggi sér lóð. Gangi það eftir gætu hjólin snúist nokkuð hratt. Hugmyndir séu uppi um frekari verkefni, jafnvel tvískipta verksmiðju sem mundi skapa fleiri störf.

Þá hefur fyrirtækið Baliqa Invest AG óskað eftir aðstöðu til að flytja vatn úr landi með tankskipi. Vatnsveita Hafnarfjarðar og fyrirtækið hafa undirritað viljayfirlýsingu sem hafnarstjórn og bæjaryfirvöld hafa lagt blessun sína yfir. „Farið verður nánar yfir öll þessi mál og hvernig hægt verði að koma aðstöðu fyrir, bæði við höfnina og eins við vatnsbólin. Það er áhugavert að skoða alla möguleika því þetta gæti auðvitað haft í för með sér verulegan tekjuauka, bæði fyrir höfnina og bæjarfélagið."

Málefni Baliqa voru kynnt í bæjarráði Hafnarfjarðar í gær. - kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×