Handbolti

Snilldarleikhlé Dags Sigurðssonar hélt lífi í sigurgöngunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson.
Füchse Berlin hélt áfram sigurgöngu sinni í þýska handboltanum eftir 27-24 sigur á Sverre Andre Jakobssyni og félögum í Grosswallstadt. Füchse Berlin er því áfram í efsta sætinu en liðið hefur unnið alla sjö leiki tímabilsins til þessa.

Füchse Berlin var 14-11 yfir í hálfleik eftir að hafa mest náð fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleiknun. Grosswallstadt minnkaði muninn strax í 15-14 og eftir það var leikurinn í járnum en Berlínarmenn voru þó skrefinu á undan þar til þegar tíu mínútur voru eftir.

Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin, sýndi snilld sína þegar hann tók leikhlé rúmum átta mínútum fyrir leikslok. Grosswallstadt var komið yfir í 23-22 sem var í fyrsta sinn sem liðið komst yfir í leiknum.

Dagur öskraði sína menn í gang í leikhléinu og þeir svöruðu með því að skora næstu þrjú mörk og fögnuðu síðan þriggja marka sigri. Alexander Petersson skoraði 3 mörk í leiknum fyrir Füchse Berlin í leiknum en markahæstur var Ivan Nincevic með ellefu mörk.

Sverre Andre Jakobsson komst ekki á blað hjá Grosswallstadt enda spilaði hann bara í vörninni var tvisvar rekinn útaf í tvær mínútur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×