Fastir pennar

Forboðin ást og aðrir smámunir

Sigga Dögg skrifar
Kæra Sigga Dögg, ég er í algjörum vandræðum! Ég á mjög góðan vin sem ég hangi mikið með og það er alltaf mjög gaman hjá okkur. Við höfum tvisvar sinnum farið heim saman af djamminu og ég er orðin vel skotin í gaurnum. Stundum finnst mér eins og ég finni líka fyrir áhuga frá honum, en aðra daga finnst mér eins og hann hafi alls engan áhuga. Ég er búin að reyna að ráða í allt sem hann segir og gerir í von um vísbendingar en kemst aldrei að neinni niðurstöðu. Hvað get ég gert til að komast að hinu sanna?

Svar: Ég ætla að gefa mér þrjá hluti; þú vilt að þessi „vinátta" verði að sambandi, að fara heim saman af djamminu tákni kynlíf og loks að þú viljir að hann sé bara með þér og engri annarri. Í mínum bókum kallast vináttan sem þú lýsir „bólfélagasamband", það er kynlíf án skuldbindinga. Eina leiðin til að komast að því hvort hann sé hrifinn af þér er að spyrja hann beint út. Það eru engin „leynitákn" til að ráða í og sögð orð hafa ekki tvöfalda merkingu. Þú segist vera skotin í honum og því þarftu að spyrja sjálfa þig hvernig þú ætlar að taka á því ef hann er ekki hrifinn af þér en vill bara vera „vinur" þinn sem fær að hanga með þér og stunda skuldbindingarlaust kynlíf. Þú þarft að vera hreinskilin við sjálfa þig um það hvort þú getir og viljir vera í slíku sambandi ef hann er ekki tilbúinn að fara í samband með þér og bara þér. Nú er tími hreinskilni, þú þarft að spyrja hann orðrétt, „Ertu hrifinn af mér og viltu samband?". Ef honum vefst tunga um tönn, þá er það þitt að taka ákvörðun um næsta skref.

Halló Sigga Dögg, ég er búin að vera á lausu alltof lengi, alveg í þrjú ár, og er farið að langa í kærasta. Ég kynntist einum fínum gaur fyrir nokkru síðan og við höfum verið að hittast svolítið. Hann er frábær í alla staði fyrir utan eitt, hann klæðir sig eins og fífl og ég meika varla að sjást með honum á almannafæri. Er ekki gróft að dömpa frábærum strák fyrir svona „smámuni"? Og er alltof snemmt fyrir mig að reyna að hafa áhrif á klæðaval hans? Ég bara get ekki horft upp á þessa hörmung mikið lengur.

Svar: Þú ert búin að vera á lausu „alltof lengi" og hafa þrjú löng, einsömul ár til að gera lista yfir hinn fullkomna mann og þegar þú svo kynnist honum þá uppfyllir hann ekki skilyrðin um réttu klæðin. Töff fataburður er huglægt mat. Þú getur vissulega komið með athugasemd varðandi klæðaburð hans en ég get ekki séð að það komi þér við. Ég veit ekki hversu lengi þið hafið verið að hittast eða hversu náin þið eruð en, ef þetta er þitt eina umkvörtunarefni, þá væri þér nær að kíkja í smá sjálfsskoðun. Á meðan þú hefur áhyggjur af því að dömpa honum, hefur þér dottið í hug að hann gæti dömpað þér vegna yfirborðskenndar og hégóma?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×