Í frétt um málið á vefsíðunni epn.dk segir að WTI olían á markaðinum í New York hafi lækkað um 2,2% og niður í rétt tæpa 70 dollara á tunnuna. Hinsvegar lækkar Brent olían í London minna eða 1,8% og stendur í 76,5 dollurum. Ekki er nema rúm vika síðan að olíuverðið var í 80 dollurum á tunnuna.
Alþjóðlegir fjárfestar óttast að skuldakreppan í Evrópu muni draga úr vexti á svæðinu og þar með eftirspurn eftir olíu og öðrum hrávörum. Margir þeirra setja nú fé sitt í gull en verðið á því setur met nánast á hverjum degi nú um stundir. Í morgun stóð gullverðið í 1239 dollurum á únsuna.