Handbolti

Sigurganga Füchse Berlin heldur áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Nordic Photos / Bongarts
Füchse Berlin fagnaði í kvöld enn einum sigrinum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og minnkaði muninn í topplið Hamburg aftur í þrjú stig.

Füchse Berlin vann Lübbecke, 27-22, eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 11-11.

Lübbecke hafði frumkvæðið framan af í síðari hálfleik og var með þriggja marka forystu, 18-15, þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Þá tók Austurríkismaðurinn Konrad Wilczynski til sinna mála og jafnaði metin fyrir Füchse Berlin með þremur mörkum á tveimur mínútum. Lærisveinar Dags Sigurðssonar tóku öll völd í leiknum eftir þetta og unnu öruggan sigur.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir refina frá höfuðborginni en Þórir Ólafsson var markahæstur í liði Lübbecke með sjö mörk.

Füchse Berlin er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig, þremur á eftir Hamburg sem fyrr segir.

Kiel er svo í þriðja sætinu, einu stigi á eftir Füchse Berlin, eftir öruggan sigur á Rheinland á heimavelli í kvöld, 33-23.

Aron Pálmarsson, sem skrifaði undir nýjan samning við Kiel í kvöld, skoraði eitt mark í leiknum.

Íslendingunum í Rheinland líður greinilega vel í leikjum gegn Kiel en Sigurbergur Sveinsson skoraði sex mörk í kvöld og Árni Þór Sigtryggsson fimm.

Hannover-Burgdorf, lið Arons Kristjánssonar, tapaði fyrir Melsungen á heimavelli í kvöld, 35-30. Hannes Jón Jónsson og Vignir Svavarsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Burgdorf en Ásgeir Örn Hallgrímsson ekkert.

Wetzlar vann góðan sigur á Grosswallstadt, 24-18. Kári Kristján Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Wetzlar en Sverre Jakobsson lék í vörn Grosswallstadt í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×