Handbolti

Aron frábær í góðum útisigri Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson, leikmaður Kiel.
Aron Pálmarsson, leikmaður Kiel. Nordic Photos / Bongarts

Aron Pálmarsson var frábær er Kiel vann góðan útisigur á slóvenska liðinu Celje Lasko í Meistaradeild Evrópu í dag.

Aron skoraði sjö mörk fyrir Kiel sem vann sex marka sigur, 34-28. Staðan í hálfleik var 18-10, Kiel í vil.

Fram kemur á heimasíðu Kiel að Aron hafi verið besti maður Kiel ásamt markverðinum Thierry Omeyer sem var með 50 prósenta markvörslu í leiknum.

Þetta er ekki síður mikill sigur fyrir Alfreð Gíslason, þjálfara Kiel, en hann tók við starfinu af Noka Serdarusic sem í dag þjálfar Celje Lasko. Serdarusic var þjálfari Kiel í fimmtán ár og er goðsögn hjá stuðningsmönnum félagsins.

Liðin spila í A-riðli sem er ógnarsterkur. Kiel er í efsta sæti riðilsins með sjö stig, rétt eins og Rhein-Neckar Löwen sem gerði jafntefli við neðsta lið riðlsins, Kielce, í Póllandi í dag. Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen.

Chambery frá Frakklandi komst í þriðja sæti riðilsins með eins marks sigri á Barcelona, 27-26, á heimavelli í dag.

Chambery er með fjögur stig, Barcelona með þrjú, Celje Lasko tvö og Kielce eitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×