Innlent

Útrásin var stærsta svikamylla Evrópu frá síðari heimsstyrjöld

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Íslenska útrásin er stærsta svikamylla Evrópu frá síðari heimsstyrjöld - jafnvel þótt ekki nema 10% af þeim þeim ásökunum sem nú liggja í loftinu haldi vatni, fullyrðir danska stórblaðið Berlingske Tidende í dag.

Viðskiptavefur Berlingske birtir í dag yfirlitsgrein um íslensku útrásarvíkingana undir fyrirsögninni Milljarðar fjármálavíkinganna eltir uppi. Blaðið rifjar upp hvernig íslenska viðskiptamódelið og stórfjárfestar landsins voru hylltir af forsetanum fyrir fáum árum - í dag jafni nýi viðskiptaráðherrann módelinu við fjármálahneykslið Enron.

Blaðið spyr hvað ráðgjafafyrirtækið Kroll - sem sérhæfir sig í fjármálabrotum - sé að gera á Íslandi, sama rannsóknarfyrirtæki og fann vel falda fjársjóði einræðisherra á borð við Saddam Hussein og og Imeldu Marcos. Jú, eins og komið hefur fram í íslenskum fjölmiðlum, er Kroll hér til að rannsaka óeðlilegar millifærslur hjá Glitni í aðdraganda bankahrunsins - og endurheimta síðan peningana.

Blaðið rifjar einnig upp gagnrýna umfjöllun um útþenslu bankanna og grun um markaðsmisnotkun ýmiskonar. Farið er yfir kaup Hannesar Smárasonar og Pálma Haraldssonar á Sterling og tengslin milli stærstu bankanna og stærstu fjárfestingafélaganna - sem megi líkja við sifjaspell.

Þá segir blaðið ljóst að það hafi ekki bara verið galin áhættusækni fjárfesta og útlánaþensla bankanna sem hafi valdið íslenska efnahagshruninu. Þvert á móti séu vísbendingar um að lítil klíka sem ráðið hafi ríkjum í íslensku viðskiptalífi hafi vitandi vits farið glannalega með lífeyrissjóði landsmanna, bankana og hlutafélög á markaði - á meðan þeir sjálfir hafa safnað auði.

Hægt er að lesa umfjöllun Berlingske Tidende hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.