Fastir pennar

Bónusar bankamanna

Jón Kaldal skrifar
Ofurlaun og fjallháir bónusar forstjóra fjármálafyrirtækja tilheyra fortíðinni á Íslandi, að minnsta kosti í bili, en eru ennþá deiluefni annars staðar. Þetta mál var meðal annarra sem leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims ræddu á fundi sínum í Pittsburgh á dögunum.

Þjóðhöfðingjarnir veltu þar fyrir sér hvort og þá hvernig hægt væri að koma böndum á ofurkjör bankamanna. Umfram allt hina hraustlegu bónusa, sem sumir bankastjórarnir eru þegar farnir að taka frá fyrir sig og sína helstu undirmenn, þótt bankarnir séu eingöngu á lífi vegna þess að stjórnvöld hafa ausið inn í þá gríðarlegum fjármunum frá skattborgurum.

Eins og gefur að skilja fellur almenningi þetta framferði bankamannanna vægast sagt þunglega. En þrátt fyrir að leiðtogarnir hafi flestir ef ekki allir lýst sömu skoðun náðist ekki samkomulag á fundinum um leiðir til að taka á málinu.

Háværustu gagnrýnendur græðginnar í fjármálageiranum, Angela Merkel og Nicolas Sarkozy, þurftu að sætta sig við tiltölulega mildilega ályktun um efnið. Talið var að Barack Obama og Gordon Brown hefðu beitt sér gegn harðorðari útgáfu.

Eftir viðtal, sem birtist við breska forsætisráðherrann á BBC í gær, er hins vegar ljóst að það hefur ekki verið hann sem kom í veg fyrir afgerandi yfirlýsingu Pittsburgh-fundarins til höfuðs bónusum bankamanna.

Í spjalli við sjónvarpsmanninn Andrew Marr var Brown harðorður um meðvitundarleysi stjórnenda breskra banka. Hann sagði að þeir skildu ekki hversu mikinn skaða þeir hefðu unnið hagkerfinu og að hann hygðist neyða bankana til að hegða sér með ábyrgari hætti. „Við ætlum að taka til í þessu kerfi í eitt skipti fyrir öll," sagði Brown og boðaði hörðustu aðgerðir sem gripið hefur verið til í heiminum. Meðal annars vill hann banna bónuskerfin sem talin eru eiga verulegan þátt í hruni fjármálalífs heimsins; annars vegar með því að ýta undir mikla áhættusækni fjármálafyrirtækja og hins vegar með beinu fjárstreymi út úr sömu fyrirtækjum til hlutfallslega fárra einstaklinga, í formi gríðarlega hárra hvatagreiðslna. Hinn fallni banki Lehman-bræðra borgaði til dæmis út í reiðufé að minnsta kosti 5,1 milljarð Bandaríkjadala til valinna starfsmanna árið áður en hann fór á hausinn. Er sú upphæð um það bil á pari við gjörvalla Icesave-ábyrgð Íslands, til að setja hana í sæmilega skiljanlegt samhengi.

Það er sannarlega verðugt verkefni að freista þess að taka á launa- og bónusmálum fjármálageirans. Helsta markmiðið hlýtur að vera að tengja hvatakerfin við langtíma afkomu, fremur en að horfa aðeins til stutts tímabils eða stöðu hlutabréfa á tilteknum degi á markaði.

Góð byrjun gæti til dæmis verið að setja lög sem banna að stjórnendum sé greitt í hlutabréfum, eða þeir geti keypt bréf á öðrum kjörum en aðrir. Eigendum fjármálafyrirtækja, og fulltrúum þeirra í stjórn, á hins vegar að vera frjálst að borga stjórnendum eins há laun og þeim sýnist.

Ef viðkomandi stjórnendur hafa nógu mikla trú á fyrirtækjum sínum geta þeir keypt hlutabréf í þeim á almennum markaði, fyrir eigið fé og áhættu, eins og hverjir aðrir fjárfestar.

 






×