Innlent

Segir starfsleyfi frá Persónuvernd hafa skort

Ríkisskattstjóri segir að IT Ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustu hafi ekki haft starfsleyfi frá Persónuvernd þegar samningur var gerður um miðlun upplýsinga úr hlutafélagaskrá. Samningurinn var gerður í trausti þess að slíkt leyfi lægi fyrir áður en niðurhal og notkun upplýsinga hæfist. Þegar í ljós kom að svo var ekki var lokað fyrir aðgang hlutaðeigandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisskattstjóra nú í kvöld. Þá segir að afstaða Persónuverndar varðandi þá framsetningu og tengingu upplýsinga sem miðlarinn hugðist birta umfram þá almennu birtingu sem starfsleyfi miðlara hafi kveðið á um liggi ekki fyrir.

Ríkisskattstjóri sendir frá sér tilkynninguna í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið um lokun á aðganginn.

„Þá hefur komið í ljós að IT Ráðgjöf og hugbúnaðarþjónusta ehf. hafði undir höndum og nýtti sér upplýsingar úr hlutafélagaskrá sem ekki verður betur séð en að forráðamaður þess hafi sem fyrrum starfsmaður ríkisskattstjóra tekið án heimildar. Sá þáttur er nú til sérstakrar meðferðar.

Það skal áréttað að embætti ríkisskattstjóra er mjög áfram um að upplýsingagjöf til almennings sé með sem bestum hætti og gagnsæi sé haft að leiðarljósi. Slíkt þarf þó ætíð að rúmast innan ramma laga og persónuverndar. Ríkisskattstjóri getur þannig ekki ljáð atbeina embættisins til að stunduð sé upplýsingamiðlun úr gagnagrunnum þess nema uppfyllt séu skilyrði laga, hversu göfug sem markmiðin eru. Lagaskilyrðin hafa ekki verið uppfyllt hjá IT ráðgjöf og hugbúnaðarþjónustu ehf.

Þá hefur forráðamaður IT Ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. lýst nauðsyn á auknu gagnsæi með kortlagningu eigenda félaga og rekstrar þeirra. Í ljósi þess vekur það athygli að það félag hefur á hinn bóginn ekki virt skýr fyrirmæli laga um afhendingu ársreikninga undanfarin þrjú ár," segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×