Handbolti

Taka Haukar sæti Nordhorn?

Sú staðreynd að þýska handboltaliðið Nordhorn hefur farið fram á greiðslustöðvun gæti þýtt áframhaldandi þátttöku fyrir Hauka í Evrópukeppninni.

Þetta segir yfirmaður keppnismála hjá handknattleikssambandi Evrópu.

Haukar mættu Nordhorn í tveimur leikjum ytra um helgina í 16 liða úrslitum EHF bikarkeppninnar og töpuðu Íslandsmeistararnir báðum leikjunum með samanlagt 30 marka mun.

Aðeins nokkrum klukkutímum eftir síðari leik liðanna fór Nordhorn fram á greiðslustöðvun en félagið skuldar eina milljón evra eða tæpar 150 milljónir króna.

Markus Glaser, yfirmaður keppnismála hjá evrópska handknattleikssambandinu sagði í samtali við fréttastofu í dag að Nordhorn væri enn ekki formlega komið í greiðslustöðvun.

Sambandið biði nú frétta frekari frétta af fjármálum félagsins en aðspurður sagði hann möguleika á að Haukar tækju sæti þýska liðsins í 8 liða úrslitum keppninnar verði Nordhorn vikið úr keppni. Það gæti skýrst síðar í þessari viku.

Glaser tók þá fram að það væri í valdi sambandsins að ákveða hvaða lið tæki pláss Nordhorn, taki liðið ekki þátt í næstu umferð.

Haukar seldu Nordhorn heimaleikinn sinn fyrir rimmu liðanna og sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka að þýska félagið væri búið að gera upp við Hauka að stærstum hluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×