Handbolti

Guðjón Valur: Ökklinn á lífi og ég spila

Henry Birgir Gunnarsson í Peking skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson á æfingu íslenska landsliðsins í morgun.
Guðjón Valur Sigurðsson á æfingu íslenska landsliðsins í morgun. MYND/Vilhelm

Guðjón Valur Sigurðsson tók þátt í lokaæfingu landsliðsins fyrir úrslitaleikinn gegn Frökkum í dag. Það eru góð tíðindi enda stöðvaðist hjarta margra Íslendinga skamma stund er hann lá í gólfinu meiddur á ökkla gegn Spánverjum. Var ljóst að þar fór þjáður maður.

Guðjón Valur er aftur á móti annálað hörkutól og hefur leikið frábærlega í þessari keppni þó svo hann sé í raun meiddur á ökklanum og hafi þurft að sleppa fyrsta leik í keppninni.

„Ökklinn er á lífi og tilbúinn í að minnsta kosti einn leik í viðbót. Ég get lofað fólki því. Þetta var bara athyglissýki og aumingjaskapur í gær. Við segjum það núna fyrir leik en sjáum svo hvernig ég verð eftir leikinn. Það verður bara teipað og bitið á jaxlinn," sagði Guðjón Valur við Vísi eftir æfinguna í dag. Hann fékk lítinn svefn í nótt líkt og félagar hans.

„Nóttin var stutt eða svefninn hið minnsta. Ég lá bara upp í rúmi og horfði glottandi upp í loftið eins og bjáni og náði ekkert að sofna. Annars settumst við fljótlega niður eftir komuna upp í þorp, ræddum málin og reyndum að ná okkur niður á jörðina svo við gætum farið að einbeita okkur að úrslitunum," sagði Guðjón Valur sem telur fínt að mæta Frökkum í úrslitum.

„Það virðast öll liðin hér alltaf óska þess að mæta okkur. Það telja sig öll vera búin að vinna fyrirfram en Frakkarnir hafa reyndar verið það lið sem er duglegast við að vanmeta okkur ekki. Þeir taka alltaf vel á því gegn okkur. Þeir eru frábærir en við höfum sýnt hvers við erum megnugir í þessu móti. Við erum að fara í úrslitaleikinn til þess að taka þátt og taka á þeim af fullum krafti," sagði Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×