Handbolti

Danir vel að titlinum komnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Sveinsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Sigurður Sveinsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

„Úrslitaleikurinn í dag náði nú aldrei að vera mjög skemmtilegur en því er ekki að neita að Danir eru mjög vel að titlinum komnir," sagði Sigurður Sveinsson einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Danmörk varð í dag Evrópumeistari í handbolta eftir sigur á Króatíu í úrstlialeik. Frakkar unnu bronsið en þeir unnu stórsigur á heimsmeisturum Þjóðverja fyrr í dag.

„Danir eru með skemmtilegan hóp og ef þeir ættu eina örvhenta skyttu til viðbótar væru þeir með allan pakkann. En þeir eru líka með mjög breiðan leikmannahóp og gátu leyft sér að spila á mjög mörgum mönnum."

„Þeir eru svo með gríðarlega sterka vörn og markmann í allra fremstu röð. Mér sýndist að þeir hafi hreinlega náð að toppa á réttum tíma og var mjög gaman að sjá hvernig þeir fóru vaxandi með hverjum leiknum. Þeir voru að spila virkilega vel."

Sigurður segir þó að Króatar hafi ekki verið með eitt af tveimur bestu liðunum á mótinu.

„Ég held að það sé alveg klárt mál að Frakkar og Danir séu með bestu liðin á mótinu. Ef ég á að segja alveg eins og er fannst mér Króatarnir væla of mikið, bæði í úrslitaleiknum sem og í undanúrslitunum."

„Það var líka augljóst að Frakkarnir sýndu með sigrinum í dag að þeir áttu heima í úrslitaleiknum. Þeir tóku heimsmeistarana bara létt."

Sigurður segir þó að þrátt fyrir að leikirnir um helgina hafi ekki verið þeir bestu sem mótið bauð upp á hafi það verið hin besta skemmtun.

„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi verið skemmtilegt mót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×