Handbolti

Þrír skoruðu flest mörk á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Christiansen með eitt af sínum 44 mörkum á EM í Noregi.
Christiansen með eitt af sínum 44 mörkum á EM í Noregi. Nordic Photos / AFP

Þeir Lars Christiansen, Ivano Balic og Nikola Karabatic skoruðu allir 44 mörk hver á EM í Noregi sem lauk í dag.

Christiansen skoraði hins vegar flest mörk að meðaltali í leik þar sem hann missti af einum leik Dana. Hann er einnig með bestu skotnýtinguna af þeim þremur, 76%.

Balic (52%) er með betri skotnýtingu en Karabatic (49%) og skoraði þar að auki fleiri mörk utan af velli en bæði Karabatic og Christiansen.

Christiansen skoraði 23 mörk úr vítum á mótinu og misnotaði aðeins eitt vítakast. Karabatic skoraði sjö mörk úr vítum en misnotaði önnur sjö. Balic skoraði úr tveimur vítum af þremur.

Guðjón Valur Sigurðsson varð í tíunda sæti á listanum með 34 mörk í þeim sex leikjum sem hann skoraði. Hann varð markakóngur á HM í Þýskalandi í fyrra.

Hvít-Rússinn Barys Pukhouski skoraði flest mörk að meðaltali í leik, 7,7 talsins. Jan Filip frá Tékklandi kom næstur (6,7) og Ales Pajovic frá Slóveníu þriðji (6,5). Christiansen varð fjórði á þessum lista og Guðjón Valur í 8.-9. sæti (5,7)

Kim Andersson frá Svíþjóð og Glenn Solberg frá Noregi áttu flestar stoðsendingar, 32 hver í sjö leikjum. Nikola Karabatic kom næstur með 26 stoðsendingar.

Efstur Íslendinganna á þessum lista varð Guðjón Valur með 22 stoðsendingar í sex leikjum en Ólafur Stefánsson átti 20 stoðsendingar í fjórum leikjum.

Andersson átti beinan þátt í flestum mörkum á EM, 73 talsins (41 mark + 32 stoðsendingar). Karabatic kom næstur (70) og Balic varð þriðji (69) en þessir þrír voru í nokkrum sérflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×