Handbolti

Stórsigur Kiel á Flensburg - Lemgo tapaði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Bongarts
Kiel vann í dag átta marka sigur á Flensburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og þar með sinn fimmtánda leik í röð í deildinni.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Kiel var með eins marks forystu í hálfleik, 17-16. En strax í upphafi síðari fór Kiel að síga framúr og vann á endanum góðan sigur, 37-29.

Filip Jicha átti góðan leik og skoraði níu mörk en Kim Andersson kom næstur með sex. Thomas Mogensen skoraði átta mörk fyrir Flensburg og Oscar Carlen sjö.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel en Alexander Petersson, leikmaður Flensburg, er enn frá vegna meiðsla.

Forysta Kiel á toppi deildarinnar er nú orðin fjögur stig þar sem að Lemgo tapaði sínum leik í dag. Kiel á þar að auki leik til góða.

Lemgo tapaði fyrir Gummersbach, 31-29, á útivelli.

Logi Geirsson skoraði þrjú mörk fyrir Lemgo, þar af eitt úr víti en hann misnotaði einnig eitt vítakast. Logi skoraði undir lok leiksins og minnkaði muninn í tvö mörk, 30-28, og Mark Schmetz náði svo að minnka muninn í eitt mark þegar tæp mínúta var til leiksloka. En það reyndist of seint og skoraði Gummersbach síðasta mark leiksins.

Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Lemgo og Róbert Gunnarsson var einn þriggja markahæstur leikmanna Gummersbach með sex mörk.

Þá vann Minden sigur á Göppingen, 28-26. Gylfi Gylfason skoraði fjögur mörk fyrir Minden en Ingimundur Ingimundarson ekkert. Jaliesky Garcia skoraði tvö mörk fyrir Göppingen.

Lemgo er í öðru sæti deildarinnar með 27 stig en Flensburg í því fimmta með 21, rétt eins og Gummersbach sem er í sjötta sæti. Göppingen er í því sjöunda með nítján stig og Minden í tólfta með tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×