Handbolti

Guðjón Valur: Skipti mér ekkert af málinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu.
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Guðjón Valur Sigurðsson segir að hann hafi látið félögin algjörlega um hvort að hann myndi klára samning sinn við Gummersbach eða fara fyrr en áætlað var til Rhein-Neckar Löwen.

Í dag var tilkynnt að Rhein-Neckar Löwen og Gummersbach hefðu komist að samkomulagi að Guðjón Valur færi til fyrrnefnda liðsins í sumar eftir langar samningaviðræður.

„Mér líst ágætlega á þetta," sagði Guðjón Valur í samtali við Vísi. „Það verður ekki auðvelt að fara frá Gummersbach en ég var búinn að taka þá ákvörðun að fara og stend við hana. Það verður gaman að fá að prófa eitthvað nýtt."

„Ég beitti mér ekkert í því máli hvort ég færi í sumar eða næsta sumar. Ég leyfði félögunum alveg að hafa sinn gang með það. Það eina sem ég bað um að ég fengi að vita þetta fyrir ákveðinn tímapunkt svo ég gæti undirbúið mig."

„Það verður væntanlega nóg að gera með landsliðinu í sumar en við ætlum okkur á Ólympíuleikana. Ég hef því um það um það bil eina viku eftir leikina við Makedóníu í júni til að koma mér hingað út, pakka öllu niður og flytja."

Rhein-Neckar Löwen er staðsett um 300 kílómetrum sunnar í Þýskalandi en Gummersbach. Guðjón Valur er þó ekkert farinn að velta næsta tímabili fyrir sér.

„Það eru enn nokkrir leikir eftir af þessu tímabili og svo kemur undankeppni ÓL, undankeppni HM og svo vonandi sjálfir Ólympíuleikarnir. Ég er því ekkert að hugsa um næsta tímabil eins og er," sagði hann.

Gummersbach hefur verið mikið Íslendingalið undanfarin ár en auk Guðjóns Vals hafa þeir Róbert Gunnarsson og Sverre Andreas Jakobsson leikið með liðinu undir stjórn Alfreðs Gíslasonar þjálfara. Sverre er á leið til Íslands eftir tímabilið og fækkar því Íslendingunum í félaginu um helming í sumar.

„Það er samt alveg nóg eftir," sagði Guðjón Valur, léttur í bragði.


Tengdar fréttir

Guðjón Valur fer frá Gummersbach í sumar

Gummersbach og Rhein-Neckar Löwen hafa komist að samkomulagi að Guðjón Valur Sigurðsson verði leystur undan samningi sínum í sumar, ári fyrr en áætlað var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×