Handbolti

Guðjón Valur fer frá Gummersbach í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur í leik með Gummersbach.
Guðjón Valur í leik með Gummersbach. Nordic Photos / Bongarts

Gummersbach og Rhein-Neckar Löwen hafa komist að samkomulagi að Guðjón Valur Sigurðsson verði leystur undan samningi sínum í sumar, ári fyrr en áætlað var.

Guðjón Valur samdi í vetur við Rhein-Neckar Löwen um að ganga til félagsins þegar að samningur hans við Gummersbach rynni út sumarið 2009 og leika með félaginu til 2012.

En frá og með 1. júlí næstkomandi mun Guðjón Valur ganga til liðs við Rhein-Neckar Löwen, en það er staðfest á heimasíðu Gummersbach í dag.

Þar segir að félögin hafi átt í langvarandi viðræðum um málið en að þau hafi loksins náð saman. Efni samkomulagsins er ekki gefið upp.

„Mér líður vel hjá Gummersbach og hef alltaf gert. Ég mun því gefa allt mitt í síðustu leiki mína hjá félaginu fyrir leikmennina og stuðningsmennina," sagði Guðjón Valur á heimasíðu Gummersbach en hann hefur gegnt fyrirliðastöðu félagsins.

Sverre Andreas Jakobsson er einnig á leið frá Gummersbach en hann leikur með HK á næsta ári. Þá verður Róbert Gunnarsson einn íslensku leikmanna áfram hjá liðinu en Alfreð Gíslason verður áfram þjálfari þess.

Guðjón hefur leikið með Gummersbach frá árinu 2005 og hefur átt góðu gengi að fagna. Hann varð markahæsti leikmaður deildarinnar á sínu fyrsta tímabili og var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar það árið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×