Fastir pennar

Þverpólitísk áfallahjálp

Borgarfulltrúar hafi lokið við rannsókn á eigin afglöpum.

Það, út af fyrir sig, er athyglisvert. Í meira lagi.

REI-skýrslan er þverpólitísk áfallahjálp. Hún er plástur á sárin, einhvers konar rifrildi til að þerra tárin.

Í skýrslunni kemur fram, sem vitað var, að borgarfulltrúar ...

... fóru ekki að reglum.

... fóru ekki að góðum stjórnsýsluháttum.

... fóru leynt með samninga.

... fóru fram úr lýðræðislegu umboði sínu.

... fóru á taugum.

Það getur verið gaman að leika sér að annarra manna peningum. Komast í hóp útvalinna efnamanna án þess að eiga efni á því. Og það getur líka verið gaman að gerast kóngur um stund - og einráður í svo sem eins og einhverja daga. Með böns af monní, eins og Megas myndi orða það.

Niðurstaða skýrslunnar er á að giska mögnuð; menn skuli læra af óförum sínum. Í niðurstöðunni eru settar fram átta hugmyndir um hvernig menn geta lært af eigin mistökum. Sjálfir skýrsluhöfundarnir ætla sumsé að taka sig á. Já, taka sér tak.

Það er gott að vera dómari í sjálfs sín sök.

Og sitja sem fastast.

Læra það eitt af mistökum sínum að pólitísk ábyrgð er óræð. Hún er alltaf óræð.

Átakanlegast í þessu máli öllu er að sjá kjörna stjórnmálamenn skjögra eins og illa spikaðan kött í kringum heitan grautinn í allri umræðunni um blessaða ábyrgðina. Á máli stjórnmálamanna heitir þetta að allt heila ákvarðanaferlið sé óljóst. Á mannamáli kallast þetta að koma málum svo fyrir að enginn sé fær um að benda á þann seka.

Já, borgarstjórn hefur ekki umboð til að refsa sjálfri sér. Umboðið er jú sem fyrr hjá kjósendum sem geta gleymt þessu næstu misserin. 

Allir vita að REI-málið er stjórnsýslulegt og pólitískt klúður frá upphafi til enda. 

Allir vita jafnframt að það eru og verða stjórnmálin, miklu fremur en stjórnmálamenn, sem bíða skaðann af allri vitleysunni.

Svo einföld eru íslensk stjórnmál.

Svo hrikalega einföld ...

-SER. 






×