Handbolti

Alfreð hættur með landsliðið

AFP

Alfreð Gíslason er hættur að þjálfa íslenska landsliðið í handknattleik. Hann tilkynnti þetta á blaðamannafundi eftir leik Íslendinga og Spánverja á EM nú áðan.

Samningur Alfreðs er við það að renna út og mun hann ekki framlengja samning sinn. Alfreð ætlaði upphaflega ekki að vera jafn lengi með landsliðið og raun ber vitni, en vegna góðs árangurs landsliðsins undir hans stjórn, var hann beittur mikilli pressu til að halda áfram.

Skemmst er að minnast undirskriftalista sem tekinn var saman hér á Vísi í fyrra þar sem skorað var á Alfreð að halda áfram eftir HM í Þýskalandi.

Alfreð sagði fjölskylduaðstæður ráða miklu í ákvörðun sinni, enda hafi lítill tími gefist til að sinna öðru en handbolta síðan hann gerðist þjálfari landsliðsins samhliða því að þjálfa þýska liðið Gummersbach.

"Ég ætla að þakka ykkur fyrir samstarfið, þetta var síðasti leikur minn sem landsliðsþjálfari," sagði Alfreð við blaðamenn sem söfnuðust saman hjá honum eftir blaðamannafund í dag.

"Þetta er því miður þannig út af fjölskylduástæðum og út frá sjálfum mér að vera ekki í þessu tvöfalda hlutverki áfram. Þetta er alltof mikil vinna en ég vil líka þakka HSÍ fyrir frábær samskipti og það var virkilega gaman að taka þátt í þessu. Ég tel mig hafa gert mitt besta í þessu þrátt fyrir að það hafi kannski ekki sést í þessari keppni," sagði Alfreð og sagðist stoltur af starfi sínu með landsliðinu.

Smelltu hér til að lesa viðtal við Alfreð á Í Blíðu og Stríðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×