Handbolti

Ísland kemst ekki í leikinn um 5.-6. sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenski landsliðshópurinn sem keppir á EM í Noregi.
Íslenski landsliðshópurinn sem keppir á EM í Noregi. Mynd/Pjetur

Nú er það endanlega ljóst að Ísland getur ekki náð þriðja sætinu í 2. milliriðli á EM í handbolta og getur því ekki spilað um 5.-6. sætið á mótinu.

Ísland getur mest náð fjórum stigum í riðlinum. Svíþjóð er nú með fimm stig í öðru sæti og Þýskaland fjögur stig í því þriðja.

Efstu tvö sætin tryggja sæti í undanúrslitum og þriðja sætið rétt til að keppa um 5.-6. sætið á mótinu.

Liðin sem lenda í fjórða sæti í milliriðlunum tveimur leika um 7.-8. sætið á mótinu á sunnudaginn kemur.

Hins vegar gæti komið til þess að sá leikur fari ekki fram ef liðin sem lenda í fimmta sæti milliriðlana keppast um eitt laust sæti í undankeppni Ólympíuleikanna. Ef það verður tilfellið keppa þau um 9.-10. sætið á mótinu og hinn leikurinn fellur niður. 

Ísland getur ekki lengur náð Svíþjóð að stigum, aðeins Þjóðverjum. En ef Ísland og Þýskaland verða jöfn að stigum ræður árangur í innbyrðisviðureignum og þar hafa Þjóðverjar betur.

Ungverjar gætu reyndar einnig blandað sér í þessa umræðu með því að gera jafntefli við Frakka á morgun því þá verða þeir einnig með fjögur stig. Það breytir þó engu því Þjóðverjar unnu bæði Íslendinga og Ungverja og eru því með best árangurinn í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða.

Ungverjar gætu reyndar komið sér í fimm stig með sigri á Frökkum á morgun og þar með í þriðja sæti riðilsins, ef Þýskaland tapar fyrir Svíþjóð.

Allt ofantalið miðast við að Ísland vinni bæði Ungverjaland í kvöld og svo Spán á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×