Handbolti

Heimsmeistararnir mæta Evrópumeisturunum í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frakkinn Nikola Karabatic hefur verið einn allra besti leikmaður mótsins til þessa.
Frakkinn Nikola Karabatic hefur verið einn allra besti leikmaður mótsins til þessa. Nordic Photos / AFP

Sex leikir eru á dagskrá Evrópumótsins í handbolta í dag og tekur Vísir hér saman hvað er undir í leikjunum.

Milliriðill 1

15.15 Króatía - Svartfjallaland

Um er að ræða algjöran skyldusigur fyrir Króata en Svartfellingar hafa enn ekki unnið leik á mótinu. Liðið komst í milliriðlakeppnina á jafntefli við Rússa og töpuðu í gær fyrir Slóvenum, 31-29.

Króatar töpuðu hins vegar sínum fyrsta leik á EM í gær er liðið var tekið í kennslustund af Dönum, 30-20.

Úrslitin þýða að hörð barátta er framundan um sæti í undanúrslitunum og má Króatía alls ekki við því að misstíga sig aftur.

17.15 Pólland - Danmörk

Þessi leikur er upp á líf og dauða fyrir Pólverja sem náðu öðru sætinu á HM í fyrra. Í gær gerði Pólland jafntefli við Noreg og stendur verst af þeim fjórum liðum í 1. milliriðli sem keppa um sætin tvö í undanúrslitunum.

Ef Danmörk vinnur hins vegar leikinn stendur liðið vel að vígi fyrir lokaumferðina.

19.15 Slóvenía - Noregur

Slóvenar eiga enga von um að komast í undanúrslitin en gætu gert atlögu að þriðja sætinu í riðlinum. Slóvenar unnu Svartfellinga í gær en það var aðeins annars sigur þeirra á mótinu. Þeir eiga því enn eftir að sanna sig gegn sterkari þjóðum mótsins og vilja sjálfsagt gera það, þó ekki nema bara stoltsins vegna.

Gestgjafarnir hafa verið afar sterkir á þessu móti en voru fyrirfram ekki taldir líklegir til að ná alla leið í undanúrslitin. Norðmenn gerðu jafntefli við Pólverja í gær og töpuðu þar með sínum fyrstu stigum á mótinu.

Nú er hins vegar spurning hvort að bólan springi eða Norðmenn taka enn eitt skref í átt að verðlaunasæti á mótinu.

Milliriðill 2

15.15 Spánn - Svíþjóð

Þetta er gríðarlega þýðingarmikill leikur fyrir bæði lið. Tap þýðir að sæti í undanúrslitunum verði afar fjarlægur draumur, sérstaklega fyrir Spánverja sem töpuðu í gær fyrir Frökkum, 28-27.

Svíar gerðu jafntefli við Ungverja og naga sig sjálfsagt í handabökin í dag.

Bæði lið þurfa nauðsynlega á því að halda að Frakkar vinni Þjóðverja í dag. Ef Þjóðverjar vinna verður erfitt að velta bæði Frakklandi og Þýskalandi úr efstu tveimur sætum riðilsins.

17.15 Þýskaland - Frakkland

Þarna mætast núverandi heimsmeistarar og Evrópumeistarar. Frakkar eru eina þjóðin á mótinu sem hafa unnið alla leiki sína til þessa og þykja gríðarlega öflugir.

Frakkar unnu í gær Spánverja en Spánn vann átta marka sigur á Þýskalandi í riðlakeppninni.

Með sigri tryggja Frakkar sér sigur í riðlinum og um leið sæti í undanúrslitum keppninnar. Það er því að miklu að keppa fyrir þá því þar með geta þeir hvílt sig í lokaumferð milliriðlakeppninnar fyrir átökin um helgina.

Þjóðverjar vilja þó vitaskuld vinna leikinn í dag enda liðið í góðri stöðu eins og er.

19.15 Ungverjaland - Ísland

Ísland á enn veika von um að ná þriðja sætinu í riðlinum en þurfa þá að vinna báða leiki sína sem eftir eru í milliriðlinum og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Strákarnir okkar eru þó fyrst og fremst að spila upp á stoltið eftir að hafa verið hreinlega niðurlægðir í þremur af fjórum leikjum sínum á mótinu.

Ungverjar hafa komið á óvart og unnu til að mynda Spánverja á fyrsta keppnisdegi mótsins. Liðið náði jafntefli gegn Svíþjóð í gær og ætla sér örugglega sigur í kvöld enda sæti í undanúrslitunum enn raunhæfur möguleiki fyrir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×