Handbolti

Of lítil batamerki

Elvar Geir Magnússon skrifar
Aron Kristjánsson, sérfræðingur Vísis.
Aron Kristjánsson, sérfræðingur Vísis.

„Það var ótrúlegt að fylgjast með upphafinu í þessum leik. Við vorum að leika gríðarlega illa og lentum mjög illa undir," sagði Aron Kristjánsson, einn af sérfræðingum Vísis um Evrópumótið í handbolta, um tap Íslands gegn Þýskalandi.

Aron sagði arfadapra byrjun Íslands hafa skemmt mikið. „Ekkert var að ganga í sókninni, við vorum lamaðir varnarlega og þá vorum við óheppnir með dómgæsluna. Við skoruðum ekki fyrr en eftir tíu mínútur og máttum alls ekki við því miðað við sálrænt ástand," sagði Aron.

„Svo kom þessi kafli þar sem við komumst í gang og náðum að minnka muninn. Þjóðverjarnir urðu kærulausir og voru skelfilega slakir. Sérstaklega voru skytturnar þeirra ekki að finna sig. En við misstum þessa forystu niður klaufalega. Spurning er hvort við náðum að minnka muninn því þeir voru að slaka á eða vegna þess að við vorum að spila vel?"

„Á heildina litið finnst mér batamerkin of lítil. Óli Stefáns og Guðjón Valur voru að spila vel og svo finnst mér Alexander hafa verið vaxandi á mótinu. Vignir fann sig ágætlega. En ég hef mestar áhyggjur af Snorra Steini. Hann hefur alveg verið týndur á þessu móti og það hefur haft mikið að segja," sagði Aron.

„Við virðumst ekki eiga möguleika í þessar sterku þjóðir og það er mjög slæmt mál. Næsti leikur er gegn Ungverjum og þeir eru sterkir og munu leggja allt í sölurnar. Við erum viðkvæmir þessa stundina en ég vona svo sannarlega að strákarnir rífi sig upp og vinni Ungverja."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×