Handbolti

Baur: Ætlum að vinna Ísland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Markus Baur fagnar sigri Þjóðverja gegn Ungverjum.
Markus Baur fagnar sigri Þjóðverja gegn Ungverjum. Nordic Photos / Bongarts

Markus Baur segir að áhorfendur mega búast við því að sjá gerbreytt þýskt landslið gegn Íslandi á morgun.

Baur er fyrirliði heimsmeistara Þýskalands og heldur á morgun upp á 37. afmælisdaginn sinn. Ísland og Þýskaland mætast í fyrsta leik 2. milliriðils klukkan 15.20.

Heimsmeistararnir unnu fyrstu tvo leiki sína á EM en töpuðu svo illa fyrir Spánverjum í gær, 30-22.

„Við þurfum að endurheimta liðsandann," sagði Baur. „En skaðinn er ekki skeður enn. Ef við vinnum alla þrjá leikina í milliriðlinum komumst við áfram í undanúrslit. Það verður gjörbreytt þýskt landslið sem mætir Íslandi á morgun."

Hann segist þó ekki vanmeta neinn andstæðing í milliriðlinum. „Öll liðin sem við mætum eru stórþjóðir í handbolta."

„Ég óska mér þess eins á afmælisdaginn að við leikmenn trúum sjálfir hversu góðir við erum. Þá vinnum við þennan leik."

Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands, segir að engin krísa sé í herbúðum þýska landsliðsin.

„Það er engin krísa. Við töpuðum einum leik. Frakkar töpuðu líka fyrir Spánverjum á EM í Sviss en urðu Evrópumeistarar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×