Handbolti

Ísland með lélegustu sóknina á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Ívar og Hreiðar hafa verið með bestu mönnum Íslands á EM í handbolta.
Birkir Ívar og Hreiðar hafa verið með bestu mönnum Íslands á EM í handbolta. Mynd/Pjetur

Áður en EM í handbolta hófst í Noregi á fimmtudaginn var talað um að Ísland ætti eitt besta sóknarlið keppninnar. Annað hefur komið á daginn.

Ísland skoraði fæst mörk allra liða í riðlakeppninni og er í því skyni með lélegustu sókn allra liða. Sextán lið hófu þátttöku á EM og hafa fjögur þeirra lokið keppni en Ísland getur þakkað góðum varnarleik og markvörslu að það komst áfram í milliriðlakeppnina.

Ísland lenti í 2.-3. sæti yfir mörk fengin á sig og hafa því markverðirnir íslensku og varnarleikurinn staðið fyrir sínu og gott betur.

Fyrir mótið var það einnig altalað að vörn og markvarsla myndi verða Akkilesarhæll Íslands og að sérstaklega markvarslan yrði hugsanlega stórt vandamál.

Þeir Hreiðar Guðmundsson og Birkir Ívar Guðmundsson hafa hins vegar verið meðal fárra leikmanna íslenska liðsins sem hafa haldið haus allt mótið.

Ísland skoraði 68 mörk í leikjunum þremur í riðlakeppninni, þremur færra en Hvíta Rússland sem skoraði næstfæst mörk.

Króatar skoruðu flest mörk, 97 talsins. Spánverjar komu næstir með 94 mörk og þá Pólverjar með 93 mörk.

Svíar eru með bestu vörnina á EM samkvæmt þessu, með 72 mörk fengin á sig. Frakkland og Ísland koma næst með 76 mörk fengin á sig, þá Króatía með 77 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×