Handbolti

Átti von á þessum viðbrögðum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson er gamall refur með landsliðinu.
Patrekur Jóhannesson er gamall refur með landsliðinu.
„Ég átti von á stórsigri hjá okkar mönnum í dag. Fyrri hálfleikur var auðvitað alveg frábær," sagði Patrekur Jóhannesson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Patrekur er staddur í Noregi og sagði að það hefði verið greinilegt að leikmenn hefði verið fyllilega einbeittir í leiknum í dag og náð að stilla á rétt spennustig.

„Ég átti von á þessum viðbrögðum leikmanna eftir Svíaleikinn," sagði Patrekur. „Vörnin var mjög góð hjá okkur og var ég sérstaklega ánægður með Fúsa. Hreiðar var líka frábær í markinu."

En rétt eins og gegn Svíum hefði sóknarleikurinn mátt vera betri.

„Við vorum í vandræðum í sókninni. Snorri þarf að finna sig betur auk þess sem að Einar og Logi voru ekki að hitta vel í dag. Menn þurfa samt að halda áfram og reyna, annars skora menn ekki."

„Við hreyfðum okkur vel í vörninni og þurfum að fá sama hreyfanleikann í sókninni."

„Á morgun fáum við svo enn sterkari vörn á móti okkur. Við erum þannig lið að við erum bestir þegar hraði leiksins er mikill og Guðjón Valur er öflugur í hraðaupphlaupunum. Það er því lykilatriði að varnarleikurinn verði eins góður og í dag og við fáum mörg hraðaupphlaup."

Hann segir að það verði mjög erfitt verkefni sem bíði íslenska landsliðsins á morgun.

„Frakkarnir eru örugglega ekki búnir að gleyma leiknum sem fór fram í Magdeburg í fyrra. Þetta er þó alls ekki vonlaust og það er allt hægt. Það þarf að hafa trú á verkefninu enda vinnum við aldrei leikinn ef við sjálfir höfum ekki trú á því."

Og þar að auki tekur hann ekki einu sinni leik Frakklands og Slóvakíu með í reikninginn en þar unnu Frakkar nauman sigur.

„Frakkar voru svo daprir í þeim leik og þeim var því miður ekki refsað fyrir það. Þeir litu á þennan leik sem æfingaleik og sýndu andstæðingnum óvirðingu af verstu gerð. En gegn Svíum í dag var allt annað að sjá til þeirra."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×