Handbolti

Ætla að sniðganga undankeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landslið Katar ætlar að sniðganga endurtekna undankeppni ÓL í handbolta.
Landslið Katar ætlar að sniðganga endurtekna undankeppni ÓL í handbolta. Nordic Photos / AFP

Kúvæt, Kasakstan, Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin ætla að sniðganga undankeppni ÓL í Asíu.

Þetta kemur fram í japönskum fjölmiðlum í dag en þetta er haft eftir Ahmed Khalifa Hammad, forseta handknattleikssambands Asíu.

Í karlaflokki vann Kúvæt sér sæti á Ólympíuleikunum í Peking í undankeppninni sem fór fram seint á síðasta ári en Alþjóða handknattleikssambandið (IHF) ákvað að sú keppni skyldi endurtekin eftir að ásakanir um hagræðingu úrslita í keppninni.

Kasakstan vann keppnina í kvennaflokki.

Alþjóða ólympíusambandið hótaði að taka handbolta af dagskrá Ólympíuleikanna ef niðurstaða keppninnar fengi að standa en ljóst er að dómgæslan í keppninni var vafasöm í besta falli.

Handknattleikssamband Asíu var mjög ósátt við niðurstöðu IHF og virðast þetta vera afleiðingarnar.

Það lítur því út fyrir að aðeins Japan og Suður-Kórea munu taka þátt í undankeppninni sem fer fram í Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×