Handbolti

Norðmenn segjast eiga besta markvörð í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steinar Ege þakkar fyrir sig eftir leikinn í kvöld.
Steinar Ege þakkar fyrir sig eftir leikinn í kvöld. Nordic Photos / AFP

Noregur vann í kvöld ótrúlegan ellefu marka sigur á Rússum, 32-21. Steinar Ege fór á kostum í markinu og varði 29 skot. Hlutfallsmarkvarsla hans var 58 prósent.

Ege átti einnig stórleik gegn Dönum, sem Norðmenn unnu naumlega, og liðsfélagar hans kepptust við að mæra hann.

„Ég hef aldrei séð aðra eins frammistöðu hjá markverði," sagði Glenn Solberg. „Ég fékk gæsahúð."

„Ég hef aldrei séð markvörð verja jafn mörg skot gegn jafn góðum andstæðingi og Rússum í kvöld," sagði Kristian Kjelling. „Hann var í heimsklassa í dag og við munum ekki sjá aðra eins frammistöðu á þessu móti."

Varamarkvörðurinn Ole Erevik var einnig ánægður með kollega sinn. „Þetta á ekki að vera hægt. Ég hef aldrei séð Steinar betri en í dag. Hann var ótrúlega góður á æfingamótinu í Danmörku fyrir EM en í dag var hann enn betri. Eins og hann er að spila í dag finnst ekki betri markvörður í heiminum."

Aðrir leikmenn tóku í sama streng og það gerði Gunnar Pettersen, þjálfari Norðmanna, líka.

„Ég hef aldreið séð annað eins hjá markverði. Steinar, þú er besti vinurinn minn! Við felldum nokkrir tár á varamannabekknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×