Handbolti

Búið spil hjá Velyky

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Velyky gengur heldur niðurlútur af velli í kvöld.
Velyky gengur heldur niðurlútur af velli í kvöld. Nordic Photos / Bongarts

Þjóðverjinn Oleg Velyky verður ekki meira með á EM í handbolta eftir að hann meiddist á hné í leik Þýskalands og Hvíta-Rússlands í dag.

Meiðslin áttu sér stað eftir einungis fjögurra mínúna leik og útilokaði læknis þýska landsliðsins eftir leikinn að Velyky gæti spilað meira á mótinu.

Velyky hefur áður þurft að glíma við hnémeiðsli og var ekki vitað í kvöld hvort að gömlu meiðslin hefðu tekið sig upp eða um ný hefði verið að ræða.

„Þetta er sorglegt," sagði Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands. „Hann sýndi með báðum mörkunum sínum í kvöld og með frammistöðu sinni í undanförnum leikjum að hann hefði getað reynst okkur afar dýrmætur á þessu móti."

Brand tilkynnti aðeins fimmtán leikmenn til þátttöku áður en mótið hófst og getur hann því bætt við öðrum manni í hópinn. Lars Kaufmann, leikmaður Lemgo, verður væntanlega staðgengill Velyky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×