Handbolti

Svíþjóð ekki í vandræðum með Sviss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomas Svensson er einn besti markvörður heims og hefur verið í áraraðir.
Tomas Svensson er einn besti markvörður heims og hefur verið í áraraðir. Nordic Photos / Bongarts

Sænska landsliðið mætti Sviss í æfingaleik í Stokkhólmi í gær og vann sjö marka sigur, 33-26.

Svíar lentu í vandræðum með sterkt lið Sviss í fyrri hálfleik. Heimamenn komust að vísu í 8-5 forystu en Sviss skoraði þá næstu fjögur mörkin og náði forystunni í leiknum. En Svíar leiddu með eins marks mun í hálfleik, 16-15.

Tomas Svensson átti svo frábæran síðari hálfleik í marki Svía og lagði grunninn að sigri sinna manna. Dan Beutler, markvörður Flensburg, lék svo síðasta korterið í leiknum.

„Við spiluðum illa í fyrri hálfleik, sérstaklega í vörninni og þá voru við lengi að stilla upp vörninni okkar eftir sóknir. En þetta lagaðist mikið í seinni hálfleik," sagði Marcus Ahlm, leikmaður Svía.

Hann skoraði sex mörk leiknum, rétt eins og Dalibor Doder og Kim Andersson. Markahæstir hjá Sviss voru Benjamijn Steiger og André Schmid með fimm mörk hvor.

Liðin mætast á nýjan leik í Uppsala í dag. Það verður síðasti leikur Svía fyrir EM í Noregi en þar mætir liðið Íslandi í fyrsta leik.

Ísland mætir Tékkum í tveimur æfingaleikjum á sunnudag og mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×