Handbolti

Góður útisigur hjá Lemgo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Logi Geirsson í leik með íslenska landsliðinu.
Logi Geirsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Pjetur
Lemgo fagnaði í dag sigri á Füchse Berlin sem spiluðu í dag sinn fyrsta leik í nýrri höll, O2-World, fyrir framan tæplega fimmtán þúsund áhorfendur.

Lemgo vann átta marka sigur, 35-27, þar sem Logi Geirsson skoraði fjögur mörk og Vignir Svavarsson eitt. Michael Kraus fór mikinn í leiknum og skoraði tíu mörk fyrir Lemgo. Staðan í hálfleik var 17-12, Lemgo í vil.

Þá steinlá Flensburg fyrir Madgeburg á útivelli, 33-26, en Alexander Petersson gat ekki leikið með Flensburg vegna meiðsla. Lars Christiansen skoraði ellefu mörk fyrir Flensburg en það dugði ekki til.

Þá vann Essen sinn fyrsta sigur í deildinni eftir níu tapleiki í röð með sigri á Minden, 27-26. Gylfi Gylfason skoraði sex mörk fyrir Minden en Ingimundur Ingimundarson komst ekki á blað.

Lemgo er í öðru sæti deildarinnar með sautján stig, rétt eins og Kiel sem á leik til góða. Flensburg mistókst að komast í sautján stig í dag og er í þriðja sæti með fimmtán stig.

Magdeburg er í sjötta sæti með þrettán stig, Füchse Berlin í því níuna með tíu, Minden í fjórtánda með fjögur stig en Essen er enn á botninum en nú með tvö stig.

Fleiri leikir eru á dagskrá þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×