Handbolti

Ólafur ekki til Danmerkur - fer til Rhein-Neckar Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur í leik með íslenska landsliðinu.
Ólafur í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Pjetur

Danskir fjölmiðlar segja frá því að ekkert verði af því að Ólafur Stefánsson fari til Danmerkur heldur gangi hann til liðs við Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

Jesper Nielsen, eigandi KasiGroup, hefur hætt við áætlanir sínar að gera danska C-deildarliðið AG Håndbold að besta handboltafélagi heims. Þess í stað ákvað hann að flytja til Þýskalands og einbeita sér að Rhein-Neckar Löwen.

KasiGroup hefur verið aðalstyrktaraðili knattspyrnuliðsins Bröndby í Danmörku og ætlaði sér næst að ausa miklum pening í danska handboltann.

„Ég fékk frábært tilboð um að fá að starfa í forystu félagsins og þar sem ég og mín fjölskylda vorum ákveðin í að flytja til Þýskalands vil ég frekar einbeita mér að því verkefni þar," sagði Nielsen við danska fjölmiðla.

„Það er langt um betri aðstaða þar og meiri möguleikar í þýskum handbolta. Og ef ég á að vera heiðarlegur er það ekki hægt að vinna Meistaradeild Evrópu með dönsku félagi."

Sömu fjölmiðlar segja að Ólafur muni fara með Nielsen til Rhein-Neckar Löwen og að það sé aðeins formsatriði að hann skrifi undir samning við þýska félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×