Handbolti

Sigur og titill í fyrsta leik Alfreðs með Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason á hliðarlínunni í dag.
Alfreð Gíslason á hliðarlínunni í dag. Nordic Photos / Bongarts

Alfreð Gíslason stýrði sínum mönnum í Kiel til sigurs í sínum fyrsta alvöru leik sem þjálfari liðsins. Liðið vann fimm marka sigur á Hamburg, 33-28, í leik um þýska Supercup-bikarinn.

Þetta var í fimmta sinn sem Kiel vinnur þennan bikar og í þriðja sinn á fimm árum. Kiel komst í 8-2 snemma í leiknum og var með þriggja marka forystu í hálfleik, 17-14.

Stefan Lövgren var markahæstur hjá Kiel með sjö mörk en Stefan Schröder skoraði sjö fyrir Hamburg.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu minna manna," sagði Alfreð eftir leikinn. „Við byrjuðum vel og Hamburg hefur átt í erfiðleikum á undirbúningstímabilinu. En maður sér hvað býr í þessu liði. Við töpuðum svo of mikið af boltum í seinni hálfleik og eftir að þeir jöfnuðu leikinn komust við aftur betur inn í leikinn."

„Ég er afar ánægður með minn fyrsta sigur í mínum fyrsta leik með Kiel sem og mínum fyrsta titil með félaginu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×