Handbolti

Ólafur mun semja við Rhein-Neckar Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur í leik með íslenska landsliðinu.
Ólafur í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Ólafur Stefánsson mun semja við þýska úrvalsdeildarfélagið Rhein-Neckar Löwen til tveggja ára og fara til félagsins í sumar.

Þetta herma heimildir fréttastofu Stöðvar 2 en ljóst er að ekkert verður af því að hann fari til danska C-deildarliðsins AG Håndbold.

Ólafur var búinn að semja við AG en í gær var greint frá því að Jesper Nielsen, eigandi KasiGroup - aðalstyrktaraðila félagsins, væri hættur við áætlanir sínar um að gera AG að sterkasta handboltafélagi Danmerkur.

Þess í stað hefur hann tekið við starfi hjá Rhein-Neckar Löwen en KasiGroup hefur einnig verið aðalstyrktaraðili þess félags.

Ólafur mun því fylgja Nielsen til Rhein-Neckar Löwen þar sem hann hittir fyrir Guðjón Val Sigurðsson.

Ólafur er þó ekki enn búinn að skrifa undir samninginn en það mun vera formsatriði að ganga frá því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×