Handbolti

Ólafur: Danir geta unnið mótið

Mynd/Valli

Ólafur Stefánsson segir Dani eiga góða möguleika á að vinna sigur á EM í handbolta. Þetta sagði Ólafur í viðltali við TV2 í Danmörku í dag.

"Danska liðið er mjög sterkt. Svo sterkt að það getur vel farið alla leið og orðið Evrópumeistari," sagði Ólafur, en bætti við að það væru margar þjóðir sem gætu gert fína hluti á mótinu.

"Frakkar, Spánverjar, Þjóðverjar og Danir - og svo auðvitað Norðmenn. Maður má aldrei vanmeta heimaþjóðina," sagði Ólafur og segir íslenska liðið stefna á verðlaunasæti.

"Við erum með mjög gott lið að mínu mati og við eigum möguleika á því að vinna til verðlauna á þessu móti," sagði Ólafur.

Hann veit vel að sænska liðið verður ekki auðunnið í kvöld. "Við höfum ekki unnið Svía nema tvisvar á síðustu tíu árum eða svo þannig að sagan er ekki beint á bak við okkur. En við unnum þá síðast og við skulum vona að það gerist aftur, "sagði Ólafur og bætti við að taugarnar yrðu þandar í leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×