Handbolti

Guðjón Valur fimmti markahæsti á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur fagnar einu 34 marka sinna á EM í Noregi.
Guðjón Valur fagnar einu 34 marka sinna á EM í Noregi. Nordic Photos / AFP

Guðjón Valur Sigurðsson er sem stendur fimmti markahæsti leikmaðurinn á EM í handbolta sem klárast í Noregi um helgina.

Hann hefur skorað 34 mörk í sex leikjum Íslands á mótinu en þau verða ekki fleiri. Guðjón Valur var markahæsti leikmaður á HM í Þýskalandi í fyrra.

Markahæstur á EM er Slóveninn Ales Pajovic með 39 mörk og næstur kemur Karol Bielecki, leikmaður Póllands með 37 mörk.

Snorri Steinn Guðjónsson er í 14.-15. sæti á listanum með 28 mörk og Alexander Petersson í 40.-41. sæti með 20 mörk.

Ólafur Stefánsson er í öðru sæti þegar meðalfjöldi stoðsendinga í leik er reiknaður. Hann gaf 20 stoðsendingar í fjórum leikjum sem gera fimm stoðsendingar að meðaltali í leik.

Glenn Solberg hefur gefið 32 stoðsendingar í sex leikjum og trónir á toppi listans með 5,3 stoðsendingar í leik.

Guðjón Valur er í áttunda sæti á listanum með 3,7 stoðendingar í leik eða alls 22 í sex leikjum.

Guðjón Valur er þó í 2.-3. sæti yfir þá leikmenn sem eiga þátt í flestum mörkum. Hann skoraði 34 mörk og gaf 22 stoðsendingar og átti þar með beinan þátt í 56 mörkum.

Slóveninn Pajovic átti einnig þátt í 56 mörkum en efstur á þessum lista er Svíinn Kim Andersson sem átti þátt í 60 mörkum (36 skoruð + 24 stoðsendingar).

Alexander er í 8.-9. sæti yfir flesta stolna bolta að meðaltali í hverjum leik eða 1,2. Hann stal sjö boltum í sex leikjum.

Guðjón Valur er í 10.-11. sæti með 1 stolin bolta að meðaltali í leik (6 í 6 leikjum).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×