Handbolti

Dagur: Þekki austurríska landsliðið betur en það íslenska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur í leik með íslenska landsliðinu.
Dagur í leik með íslenska landsliðinu.

Dagur Sigurðsson, verðandi landsliðsþjálfari Austurríkis, segir að hans bíði spennandi verkefni þar sem EM í handbolta árið 2010 verður haldið í Austurríki.

„Ég þekki austurríska liðið gríðarlega vel, kannski betur en það íslenska," sagði Dagur í samtali við Vísi. Hann starfaði sem þjálfari austurríska meistaraliðsins A1-Bregenz í fjögur ár áður en hann kom til Íslands síðastliðið vor og varð framkvæmdarstjóri Vals.

„Margir leikmannanna í landsliðinu voru hjá mér í Bregenz og verður það mitt verkefni að móta lið sem getur komið á óvart í þessu móti. Austurríska landsliðið hefur oft verið nálægt því að komast á stórmót en það hefur ekki tekist undanfarin ár."

Fram kom í þættinum Utan vallar á Sýn í kvöld að Dagur mun á sunnudaginn fara til Vínar þar sem hann mun skrifa undir samninginn.

Eins og flestir vita hafnaði Dagur boði HSÍ um að taka að sér þjálfun íslenska landsliðsins. Hann segir að margt hafi komið til í ákvörðun sinni.

„Fyrir það fyrsta vildi ég ekki taka að mér íslenska starfið með einhverju öðru. Það hefði kallað á vandamál á báðum vígstöðum. Það hefur líka mikið að segja að það er Ólympíuár í ár. Ef ég hefði farið með liðið þangað hefði ég verið frá vinnu nánast allt sumarið."

Dagur mun halda áfram í starfi sínu hjá Val og sinna landsliðsþjálfarastarfinu samhliða því.

„Þetta er ekki ósvipað því sem Alfreð Gíslason gerði sem þjálfari Gummersbach og landsliðsþjálfari Íslands. Ég held áfram minni vinnu hér heima og fékk ég mikinn skilning frá mínum vinnuveitindum um að taka þetta að mér."

Hann mun því verða í góðu sambandi við sína samstarfsmenn í Austurríki en Dagur segir að umgjörðin í kringum landsliðið sé stór og afar fagmannleg.

„Þetta verkefni er búið að vera í gangi hjá þeim í 3-4 ár. Það er allt nú þegar til staðar. Liðið er með sitt þjálfarateymi, framkvæmdarstjóra og læknalið. Ég fékk til að mynda marga bunka af upplýsingum um alla leikmenn liðsins og ástand þeirra."

„Ég vil þó taka það skýrt fram að ég er ekki að setja mig á stall gagnvart HSÍ. Ég hefði vel getað hugsað mér að fara þar inn og djöflast. En ég mat það bara svo að hitt væri betri kostur fyrir mig að þessu sinni."

Hann segir að það séu ákveðnir möguleikir fyrir austurríska landsliðið að standa sig vel á EM á heimavelli.

„Austurríska landsliðið hefur ekki verið að standa sig eins vel og þeir eiga að sér og sé ég því ákveðna möguleika í því að það gæti komið á óvart á heimavelli."

„En á móti kemur að þeir búa ekki yfir þeirri reynslu að hafa spilað á stórmótum og undir mikilli pressu. Hjá Bregenz náði ég að koma því hugarfari inn hjá mönnum að gefast ekki bara upp þegar stóru liðin koma heldur berjast allt til loka."


Tengdar fréttir

Dagur að taka við austurríska landsliðinu

Dagur Sigurðsson staðfesti í þættinum Utan vallar á Sýn í kvöld að hann muni líklega taka við yfirþjálfun austurríska landsliðsins í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×