Handbolti

Þórir kom Lübbecke aftur á sigurbrautina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Ólafsson í leik með Lübbecke.
Þórir Ólafsson í leik með Lübbecke. Mynd/Oliver Krato
Lübbecke er aftur komið á sigurbraut í þýsku B-deildinni í handbolta eftir sigur á Varel á útivelli, 30-27.

Þórir var einn markahæstu leikmanna Lübbecke með sjö mörk en hann var í lykilhlutverki er Lübbecke tryggði sér sigurinn í síðari hálfleik.

Staðan var 22-21 þegar að Þórir skoraði tvö mörk úr hraðaupphlaupum á tveimur mínútum og Lübbecke komst í 25-21. Í kjölfarið skoraði hann svo af línunni, fiskaði víti og skoraði úr hraðaupphlaupi er Lübbecke komst í 28-22. Þar með var sigurinn tryggður.

Þá átti Hannes Jón Jónsson einnig góðan leik fyrir Hannover-Burgdorf sem vann stórsigur á Empor Rostock, 43-28. Hannes skoraði sjö mörk í leiknum og Heiðmar Felixsson eitt.

Lübbecke er á toppi norðurriðils B-deildarinnar í Þýskalandi með 30 stig eftir sextán leiki. Liðið hefur eins stigs forystu á Hamm og á einnig einn leik til góða á hin topplið deildarinnar.

Hannover-Burgdorf er í fjórða sæti með 25 stig.

Í suðurriðlinum vann Düsseldorf sigur á Münster, 30-27. Sturla Ásgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Düsseldorf sem er á toppi riðilsins með 30 stig eftir sautján leiki. Liðið er með sex stiga forystu á næstu lið í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×