Handbolti

Stórbrotinn sigur á Ungverjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dyggir stuðningsmenn íslenska landsliðsins á leiknum í kvöld.
Dyggir stuðningsmenn íslenska landsliðsins á leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP

Ísland vann í kvöld frábæran sigur á Ungverjalandi, 36-28, á Evrópumótinu í handbolta í Noregi.

Staðan í hálfleik var 16-16 en Ungverjar byrjuðu betur og komust í 8-4 forystu. Þá tóku Íslendingar við sér og jöfnuðu metin áður en hálfleikurinn var liðinn.

Síðari hálfleikur var svo stórbrotinn af hálfu íslenska liðsins þar sem hreinlega allt gekk upp. Íslenska liðið sýndi loksins sitt rétta andlit í þessum leik.

Leiknum var lýst beint á Vísi og má lesa allt um leikinn hér fyrir neðan, einnig ítarlega tölfræði.

20.44 Ísland - Ungverjaland 36-28

Ísland kláraði leikinn með sæmd og vann að lokum átta marka langþráðan sigur.

Síðari hálfleikur hefur verið það besta sem íslenska liðið hefur sýnt. 6-0 vörnin hefur haldið gríðarlega vel og leikmenn spilað mjög góðan sóknarleik.

Þetta er það sem allir hafa verið að bíða eftir en Ungverjar áttu sjálfsagt ekki von á. Úrslitin þýða það að Ungverjar eiga ekki möguleika á sæti í undanúrslitunum.

En Ísland á það ekki heldur eins né heldur á að leika um 5.-6. sætið í keppninni eins og fram hefur komið hér á Vísi.

Það er í raun ekkert meira hægt að segja um þennan leik. Allir spiluðu glimrandi vel og þeir gerðu það sem upp var lagt með.

Tveir leikmenn stóðu upp úr í leiknum. Snorri Steinn Guðjónsson átti hreint stórkostlegan leik og skoraði ellefu mörk, þar af eitt úr víti.

Hreiðar Guðmundsson átti einnig frábæran leik en hann kom inn á fyrir Birki Ívar á 12. mínútu og varði á þeim tíma átján skot. Hlutfallsmarkvarsla hans var 49 prósent sem er frábær árangur gegn svo sterkum andstæðingi.



Tölfræði leiksins:

Ísland - Ungverjaland 36-28 (16-16)

Gangur leiksins: 1-0, 1-2, 3-4, 4-8, 6-8, 7-10, 10-11, 12-12, 13-15, 14-16, (16-16), 16-17, 18-17, 21-18, 26-19, 30-22, 33-25, 35-27, 36-28.

Mörk Íslands (skot):

Snorri Steinn Guðjónsson 11/1 (15/2)

Guðjón Valur Sigurðsson 6/2 (11/2)

Róbert Gunnarsson 5 (7)

Ólafur Stefánsson 5/1 (11/2)

Alexander Petersson 4 (7)

Hannes Jón Jónsson 2 (2)

Logi Geirsson 2 (3)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 1 (1)

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 18/1 (37/6, 49%, 49 mínútur)

Birkir Ívar Guðmundsson 1 (10/2), 10%, 11 mínútur)

Skotnýting: 63%, skorað úr 36 af 57 skotum.

Vítanýting: Skorað úr 4 af 6.

Fiskuð víti: Ólafur 3, Sigfús 1, Guðjón Valur 1 og Róbert 1.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 8 (Snorri Steinn 3, Guðjón Valur 2, Róbert 2 og Alexander 1).

Utan vallar: 8 mínútur (Sverre 2, Sigfús 1 og Vignir 1 brottvísun).

Rautt spjald: Sverre Andreas Jakobsson (45:43 mín)

Markahæstir hjá Ungverjalandi:

Tamas Mocsai 6/5 (11/6)

Laszlo Nagy 5 (10)

Balazs Laluska 4 (4)

Varin skot:

Nenad Puljezevic 11 (36/3, 31%, 40 mínútur)

Nandor Fazekas 6 (17/3, 35%, 20 mínútur)

Skotnýting: 56%, skorað úr 28 af 50 skotum.

Vítanýting: Skorað úr 7 af 8.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 5.

Utan vallar: 8 mínútur. 

20.37 Ísland - Ungverjaland 31-25

Fimm mínútur til leiksloka og munurinn er sex mörk. Síðari hálfleikurinn hefur verið hreint frábær hjá Íslendingum og hreinlega allir leikmenn sem hafa verið að leika glimrandi vel með íslenska liðinu.

20.31 Ísland - Ungverjaland 28-22

Tíu mínútur eftir af leiknum og forysta Íslands er sex mörk. Þetta veit á gott.

20.23 Ísland - Ungverjaland 26-19

Hreiðar Guðmundsson hefur farið á kostum og nú er hann búinn að verja fyrsta vítið sitt. Hann hefur alls varið fimmtán skot og hlutfallsmarkvarsla hans er upp á 60%.

Sverre Andreas Jakobsson fékk þó rautt spjald fyrir að fara með hönd í andlit eins Ungverjans.

Ísland er með 10-3 forystu í síðari hálfleik.

20.17 Ísland - Ungverjaland 24-19

Frábær leikkafli hjá íslenska liðinu undanfarnar mínútur. Ólafur Stefánsson átti tvö glæsileg mörk úr langskotum og svo fylgdi Logi Geirsson í kjölfarið með sitt fyrsta mark.

Ungverjar hafa farið á taugum og gert hver mistökin á fætur öðrum í sínum sóknarleik.

En nú gildir að halda haus. Íslenska liðið hefur verið þekkt fyrir kæruleysi þegar það komst nokkrum mörkum fram úr andstæðingnum.

20.12 Ísland - Ungverjaland 20-18

Nú gengur þetta vel. Snorri Steinn hefur haldið áfram að fara á kostum og skoraði fyrstu tvö mörk Íslands í hálfleiknum og lagði upp það þriðja.

Baráttan hjá íslenska liðinu er einnig til fyrirmyndar.

19.55 Ísland - Ungverjaland 16-16

Það var mikið að gerast á lokamínútunum í hálfleiknum en samt aðeins eitt mark. Sem betur fer var það íslenskt.

Þrátt fyrir það misnotaði Ólafur Stefánsson vítakast en markvörðurinn galvaski Nenad Puljezevic, sem Frode Hagen úthrópaði sem hálfvita fyrir mót, hefur reynst Íslendingum erfiður. Hann hefur varið níu skot.

Hreiðar lék síðustu 19 mínúturnar í hálfleiknum og hefur einnig varið níu skot. Hlutfallsmarkvarsla hans er 53% sem er vitanlega frábær árangur.

Það er jákvætt að Ísland skuli ekki vera undir í hálfleik - afar jákvætt.

Mörk Íslands:

Snorri Steinn Guðjónsson 6

Róbert Gunnarsson 3

Alexander Petersson 2

Hannes Jón Jónsson 2

Ólafur Stefánsson 2/1

Guðjón Valur Sigurðsson 1

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 9 (17/3, 53%, 19 mínútur)

Birkir Ívar Guðmundsson 1 (9/1, 11%, 11 mínútur)

19.47 Ísland - Ungverjaland 15-16

Ísland náði að jafna metin í stöðunni 12-12 og svo aftur í 13-13. En þá komu tvö mörk hjá Ungverjum í röð en það jákvæða er að Íslendingar hafa ekki hleypt þeim á flug.

Þetta veltur allt á varnarleiknum. Þegar vörnin heldur fylgir allt annað með, bæði mörk og markvarsla.

Alfreð hefur kosið síðustu mínútur að skipta bæði þeim Sigfúsi og Sverre inn á í vörnina og hefur það gengið ágætlega.

Þrjár mínútur í leikhlé.

19.43 Ísland - Ungverjaland 11-12

Síðustu tíu mínútur hafa gengið fínt. Varnarleikurinn er mun betri og sóknin er einnig í ágætum málum. En eins og svo oft áður kann það að reynast strákunum dýrkeypt að nýta ekki dauðafærin sem þeir koma sér í.

Hreiðar Guðmundsson hefur líka komið sterkur inn í íslenska markið og varið fjögur skot.

Snorri Steinn hefur líka farið á kostum og skorað fimm mörk. Það hafa margir beðið eftir þessari frammistöðu hjá Snorra.

19.30 Ísland - Ungverjaland 4-8

Alfreð Gíslason hefur tekið leikhlé þegar rúmar ellefu mínútur eru liðnar af leiknum. Byrjunin er vissulega betri en í gær en varnarleikurinn þarf að vera mun betri.

Enda allt of mikið að fá átta mörk á sig á ellefu mínútum. Birkir Ívar hefur varið eitt skot í leiknum til þessa, það fyrsta sem hann fékk á sig.

19.20 Ísland - Ungverjaland 1-2

Leikurinn byrjaði á mjög jákvæðum nótum er Birkir Ívar varði fyrsta skot leiksins og Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fyrsta markið.

En þá skoruðu Ungverjar tvö mörk í röð og tóku forystuna í leiknum.

Byrjunarlið Íslands er þannig í sókninni frá vinstri talið: Hannes Jón, Guðjón Valur, Snorri Steinn, Ólafur, Alexander og Róbert er á línunni.

Birkir Ívar er í markinu og Snorri Steinn skiptir út fyrir Sverre Andreas í vörninni.

Alfreð stillir vörninni upp samkvæmt 5-1 leikkerfinu með þann Guðjón Val fremstan.

19.17

Fram kemur á stuðningsmannasíðunni Í blíðu og stríðu að Íslendingar leika í bláum búningum í kvöld.

Það veit ef til vill á gott því Ísland hefur spilað í bláum búningum einu sinni áður á mótinu - í sigurleiknum gegn Slóvökum.

Ísland hefur tapað öllum þremur leikjunum þegar það hefur klæðst rauðu búningunum.

Íslenski leikmannahópurinn:

Markverðir:

12 Birkir Ívar Guðmundsson

16 Hreiðar Guðmundsson

Aðrir leikmenn:

2 Vignir Svavarsson

3 Logi Geirsson

4 Bjarni Fritzson

5 Sigfús Sigurðsson

6 Ásgeir Örn Hallgrímsson

9 Guðjón V. Sigurðsson

10 Snorri Steinn Guðjónsson

11 Ólafur Stefánsson

15 Alexander Petersson

17 Sverre Jakobsson

18 Róbert Gunnarsson

25 Hannes Jón Jónsson

19.04

Alfreð Gíslason ákvað að velja Einar Hólmgeirsson ekki í leikmannahóp Íslands í dag en í hans stað kemur Sverre Andreas Jakobsson í hópinn.

Jaliesky Garcia er enn veikur og er efast um að hann geti nokkuð spilað aftur með íslenska landsliðinu á þessu móti.

18.58

Velkomin til leiks hér á Vísi þar sem leik Íslands og Ungverjalands verður lýst í beinni textalýsingu.

Línur eru heldur betur teknar að skýrast í milliriðli Íslands en rétt í þessu unnu Frakkar þriggja marka sigur á Þjóðverjum og tryggðu sér þar með efsta sæti riðilsins auk sætis í undanúrslitunum.

Svíar unnu fyrr í dag gríðarlega mikilvægan sigur á Spánverjum sem þýðir að þeir eru í bestu stöðunni til að fylgja Frökkum í undanúrslitin.

En Ungverjar geta gert harða atlögu að Svíum og Þjóðverjum með sigri á Íslendingum í dag.

Þeir gætu sett strik í reikninginn fyrir Svía sem munu án nokkurs vafa halda með Íslendingum í þessum leik.

Ef Ungverjar vinna ekki hér í dag stefnir í hreinan úrslitaleik milli Þýskalands og Svíþjóðar á morgun um hvort liðið fylgir Frökkum í undanúrslit keppninnar.

Svíum dugir þó jafntefli í leiknum (ef Ungverjar tapa í kvöld) því þeir eru með fimm stig en Þjóðverjar fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×