Handbolti

391 milljón króna í breskan handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Merki breska handboltasambandsins.
Merki breska handboltasambandsins.

Bretar ætla að ausa pening í að byggja upp handboltalandslið en hægt er að sækja um sæti í landsliðinu á heimasíðu breska handboltasambandsins.

Eftir því sem kemur fram í netútgáfu Times ætlar Ólympíunefnd Bretlands að verja tæpur þremur milljónum punda - rúmri 391 milljón króna - í að byggja upp handboltalandslið. Það er aðeins það sem er áætlað á þessu ári.

Greinarhöfundi finnst þetta algjörlega tilgangslaust þar sem engin hefð er fyrir handbolta í Bretlandi og nýta mætti peninginn betur annars staðar.

En Bretar eru staðráðnir í að keppa í öllum íþróttum og gefst kostur á að taka þátt í handboltakeppninni sem gestgjafar.

Hann líkir þessu saman við þegar Grikkir ákváðu að safna í landslið í hafnarbolta til að keppa á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004.

„Grikkir vita álíka mikið um hafnarbolta og ég og þú vitum um Guðjón Val Sigurðsson, handboltastjörnu frá Íslandi og markahæsta leikmann síðasta heimsmeistaramóts," segir greinarhöfundur.

Áhugasamir geta meira að segja sótt um sæti í breska handboltalandsliðinu og þar með keppa á Ólympíuleikunum.

Bækistöðvarnar eru í Sheffield á Englandi og á heimasíðu sambandsins segir að allir þeir sem eru á aldrinum 18-24 ára megi sækja um. Þeir þurfa að vera breskir ríkisborgarar eða í þeirri stöðu að geta útvegað sér breskt vegabréf í gegnum skyldleika.

Hérna má finna upplýsingar um verkefnið og umsóknareyðublað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×