Handbolti

Hetjuleg barátta dugði ekki til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigfús Sigurðsson reynir að stöðva Markus Baur.
Sigfús Sigurðsson reynir að stöðva Markus Baur. Mynd/Pjetur

Ísland tapaði þriðja leik sínum af fjórum á EM í handbolta. Í þetta sinn fyrir heimsmeisturum Þjóðverja, 35-27.

Staðan í hálfleik var 17-12 fyrir Þjóðverja sem komust í 6-0 en fyrsta íslenska markið kom ekki fyrr en þegar tíu mínútur voru liðnar.

Holger Glandorf var valinn besti leikmaður Þýskalands og Ólafur Stefánsson besti maður Íslands.

Lesa má allt um leikinn hér fyrir neðan sem og ítarlega tölfræði leiksins en leikurinn var í beinni textalýsingu hér á Vísi.

16.54 Ísland-Þýskaland 27-35, lokastaða

Leiknum er lokið með átta marka sigri Þjóðverja en þeir stungu hreinlega af á lokamínútum leiksins.

Ísland sýndi á tíu mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks hvað það getur. Þá byrjaði liðið að spila loksins eins og allir hafa verið að bíða eftir. Liðið skoraði átta mörk gegn þremur á þeim tíma og tókst að minnka muninn í tvö mörk, 20-22.

En á næstu þrettán mínútum skoruðu Þjóðverjar níu mörk gegn þremur og gerðu þar með út um leikinn.

Eftir forgjöfina sem Ísland gaf Þýskalandi í upphafi leiks verður að hrósa strákunum fyrir þá hetjulegu baráttu sem þeir sýndu í seinni hálfleik.

Á endanum tóku þó heimsmeistararnir einfaldlega völdin í sínar hendur og sögðu hingað og ekki lengra. Þeir röðuðu svo inn mörkunum á lokamínútunum og var sigurinn því helst óþarflega stór.

Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson áttu glimrandi góðan leik fyrir Ísland og var Ólafur nánast óstöðvandi þegar gekk sem best.

Vignir Svavarsson átti einnig mjög góða innkomu í fyrri hálfleikinn og lék einnig vel í þeim síðari.



Tölfræði leiksins:

Ísland - Þýskaland 27-35 (12-17)

Gangur leiksins: 0-6, 1-6, 3-9, 5-10, 5-14, 7-15, 8-17, (12-17), 14-18, 17-20, 18-22, 20-22, 21-23, 21-26, 22-29, 23-31, 26-33, 27-35.

Mörk Íslands (skot):

Ólafur Stefánsson 8/4 (12/4)

Guðjón Valur Sigurðsson 6 (11)

Alexander Petersson 4 (5)

Vignir Svavarsson 4 (6)

Snorri Steinn Guðjónsson 2 (5)

Logi Geirsson 1 (2)

Einar Hólmgeirsson 1 (2)

Hannes Jón Jónsson 1 (2)

Bjarni Fritzson 0 (1)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 0 (1)

Varin skot:

Birkir Ívar Guðmundsson 8 (30/2, 27%, 40 mínútur)

Hreiðar Guðmundsson 3 (16, 19%, 20 mínútur)

Skotnýting: 57%, skorað úr 27 af 47 skotum.

Vítanýting: Skorað úr 4 af 4.

Fiskuð víti: Guðjón Valur 3 og Ólafur 1.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 5 (Vignir 2, Guðjón Valur 2 og Alexander 1).

Utan vallar: 8 mínútur (Vignir, Bjarni, Sigfús og Alexander ein brottvísun hver). 

Markahæstir hjá Þýskalandi:

Holger Glandorf 9 (12)

Florian Kehrmann 6 (8)

Pascal Hens 5 (9)

Varin skot:

Johannes Bitter 9 (29/3, 33%, 39 mínútur)

Henning Fritz 6 (15/1, 40%, 21 mínúta)

Skotnýting: 65%, skorað úr 35 af 54 skotum.

Vítanýting: Skorað úr 2 af 2.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 9.

Utan vallar: 8 mínútur. 

16.40 Ísland-Þýskaland 22-29

Þjóðverjar hafa skorað sjö af síðustu níu mörkum leiksins og verður erfitt að brúa það bil á þeim ellefu mínútum sem eru eftir. Þýska vörnin er mjög erfið viðureignar þessa stundina á meðan að íslenska vörnin er ekki jafn góð og hún var í upphafi hálfleiksins.

16.35 Ísland-Þýskaland 21-25

Henning Fritz hefur varið tvo bolta í röð sem veit ekki á gott. Þjóðverjarnir refsa enn fyrir hver mistök sem íslenska landsliðið gerir en strákarnir eru að spila miklu mun betur en í fyrri hálfleik og geta vel jafnað metin.

Stundarfjórðungur til leiksloka.

16.28 Ísland-Þýskaland 20-22

Loksins, loksins er íslenska liðið byrjað að spila almennilega sóknarleik. Ólafur Stefánsson er að fara á kostum og hefur skorað átta mörk í leiknum til þessa.

16.19 Ísland-Þýskaland 14-18

Síðari hálfleikur byrjar vel. Tvö mörk gegn einu og Holger Glandorf fékk sína aðra brottvísun en hann hefur skorað sex mörk úr níu skotum í leiknum til þessa. Vonandi verða þau ekki fleiri.

16.02 Ísland-Þýskaland 12-17, hálfleikur

Eftir hreint ömurlega byrjun hafa strákarnir tekið sig saman í andlitinu og skorað tólf mörk á 20 mínútum. Það er ágætt og frá því að Guðjón Valur skoraði fyrsta mark Íslands eftir tíu mínútur og minnkaði þar með muninn í fimm mörk hefur sá munur haldist nú í hálfleik.

Það þýðir að ef Þjóðverjar gefa eftir í seinni hálfleik og Íslendingar ganga á lagið er öll nótt ekki úti enn.

Forysta Þjóðverja var þó mest níu mörk í stöðunni 14-5.

En íslenska liðið lék hreint skelfilega fyrstu fimmtán mínútur leiksins. Einu mennirnir sem gerðu nokkuð sem vit var í voru þeir Guðjón Valur og Ólafur. Aðrir sóknarmenn voru algjörlega rænulausir og ástandið var litlu skárra í vörninni.

Það lagaðist þó eftir því sem á leið og hefur til að mynda Vignir Svavarsson átt mjög góða innkomu í vörnina og þar að auki skorað tvö mörk úr hraðaupphlaupum.

Birkir Ívar varði ekki skot fyrstu tíu mínúturnar en varði fjögur á síðustu sjö.

Mörk Íslands:

Guðjón Valur Sigurðsson 5

Ólafur Stefánsson 3/1

Vignir Svavarsson 2

Alexander Petersson 1

Hannes Jón Jónsson 1

Varin skot:

Birkir Ívar Guðmundsson 4 (12/1, 33%, 18 mínútur)

Hreiðar Guðmundsson 2 (11, 18%, 12 mínútur)

15.58 Ísland-Þýskaland 10-17

Síðustu tíu mínútur hafa verið jafnar, 5-5, eins og glöggir lesendur sjá. Guðjón Valur er langbesti maður Íslands, Ólafur er góður og vörnin er loksins farin að sýna batamerki.

Brand hvetur sína menn til að taka lífinu rólega og nýta sóknir sínar vel.

15.48 Ísland-Þýskaland 5-12

Það eru einhverjar örlitlar blikur á lofti um að Ísland sé að bæta sinn leik en Þjóðverjar gefa ekkert eftir og refsa fyrir hver einustu mistök sem Ísland gerir.

Guðjón Valur og Ólafur hafa einir séð um markaskorun Íslands og eru einu mennirnir með lífsmark inn á vellinum. Hreiðar Guðmundsson hefur varið tvö skot til þessa.

15.36 Ísland-Þýskaland 1-7

Fyrsta mark Íslands kom eftir sléttar tíu mínútur. Hornamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson var þar að verki með langskoti.

Þjóðverjar svöruðu um hæl og nýttu sína sjöundu sókn af átta í leiknum.

15.33 Ísland-Þýskaland 0-6

Alfreð Gíslason tekur leikhlé og les yfir strákunum vegna varnarleiksins. Hann hefur verið átakanlega slakur enda hafa Þjóðverjar nýtt sex af sjö sóknum í leiknum.

Heiner Brand segir sínum mönnum að halda einfaldlega áfram á sömu braut. Ekki taka neina áhættu og halda áfram að spila eins og þeir hafa gert.

15.29 Ísland-Þýskaland 0-4

Íslenska liðið hefur ekki náð að skora á fyrstu sex mínútunum. Ekkert gengur, hvorki í vörn né sókn.

15.22 Ísland-Þýskaland 0-2

Leikurinn er byrjaður og Florian Kehrmann skoraði fyrsta mark leiksins úr hægra horninu hjá Þýskalandi.

Ísland tapaði hins vegar boltanum í fyrstu sókninni sinni og Þjóðverjar skoruðu úr næstu sókn.

Byrjunarlið Íslands í sókninni er frá vinstri: Guðjón Valur, Logi, Snorri Steinn, Ólafur og Alexander. Róbert er á línunni.

Í vörninni skiptir Snorri út fyrir Sigfús. Alfreð Gíslason þjálfari ákvað að stilla upp í hefðbundna 5-1 vörn með Guðjón Val fremstan.

15.17

Það er greinilegt að ekki jafn margir stuðningsmenn íslenska liðsins eru í Þrándheimi nú og var á leikjum liðsins í riðlakeppninni. Það er til að mynda ekki jafn vel tekið undir í íslenska þjóðsöngnum en þeir sem eru á pöllunum reyna að láta í sér heyra eins mikið og kostur er.

15.12

Á stuðningsmannasíðunni stórgóðu Í blíðu og stríðu er sagt frá því að Íslandi spili í rauðum búningum í dag.

Það sem er ef til vill enn merkilegra er að Guðjón Valur Sigurðsson er búinn að raka af sér skeggið. Hvaða þýðingu það hefur verður einfaldlega að koma í ljós ...

15.01

Verið velkomin til leiks hér á Vísi þar sem leik Íslands og Þýskalands verður lýst með beinni textalýsingu.

Helstu fréttir eru þær að Ólafur Stefánsson er með íslenska landsliðinu á nýjan leik eftir tveggja leikja fjarveru en Sverre Andreas Jakobsson dettur úr hópnum í hans stað.

Jaliesky Garcia verður heldur ekki með en hann missti af leiknum við Frakka vegna veikinda.

Eins og margoft hefur komið fram er um gríðarlegan mikilvægan leik að ræða fyrir bæði lið. Þjóðverjar þurfa nauðsynlega að vinna til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum og tap í dag yrði risastórt hneyksli fyrir heimsmeistarana.

En ætli Íslendingar sér lengra í þessu móti en 7.-12. sæti er sigur algjört frumskilyrði í dag.

Leikmannahópur Íslands:

Markverðir:

12 Birkir Ívar Guðmundsson

16 Hreiðar Guðmundsson

Aðrir leikmenn:

2 Vignir Svavarsson

3 Logi Geirsson

4 Bjarni Fritzson

5 Sigfús Sigurðsson

6 Ásgeir Örn Hallgrímsson

9 Guðjón V. Sigurðsson

10 Snorri Steinn Guðjónsson

11 Ólafur Stefánsson

13 Einar Hólmgeirsson

15 Alexander Petersson

18 Róbert Gunnarsson

25 Hannes Jón Jónsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×