Handbolti

Mikilvægur dagur á EM í handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Munu Nikola Karabatic og félagar fagna sigri gegn Spánverjum í dag?
Munu Nikola Karabatic og félagar fagna sigri gegn Spánverjum í dag? Nordic Photos / AFP

Það er spennandi dagur framundan á EM í handbolta og tekur Vísir hér saman hvað sé undir hjá liðunum tólf sem spila í dag.

Milliriðill 1



15.15 Slóvenía - Svartfjallaland



Þarna mætast liðin sem eru í neðstu sætum 1. milliriðils. Bæði lið eru án stiga og eiga af þeim sökum afskaplega veika von um að komast í leikinn um 5.-6. sætið, hvað þá undanúrslitin.

En að sama skapi er þetta besta tækifæri beggja liða til að ná sér í stig í milliriðlinum og auka þar með líkurnar að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna, þó það sé vissulega borin von.

Svartfellingar hafa reyndar ekki enn sem komið er unnið leik á mótinu en liðið fór áfram á jafnteflinu fræga við Rússa sem á endanum felldi gamla stórveldið.



17.15 Króatía - Danmörk


Þetta verður án efa einn af mest spennandi leikjum dagsins. Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, segir að það verði nánast vonlaust fyrir sína menn að komast í undanúrslitin ef þeir tapi þessum leik.

Það er því allt undir hjá Dönum. Þeir ætluðu sér sigur á þessu móti og verður þetta fyrsta alvöru prófraunin á liðið eftir að það tapaði fyrir Noregi á fyrsta keppnisdegi mótsins.

Vinni Króatar í dag verður liðið komið sex stig, fjórum stigum á undan Dönum. Þar með verða Danir að treysta á að úrslit annnarra leikja verði þeim hagstæð.

19.15 Pólland - Noregur

Pólverjar eru í svipaðri stöðu og Danir. Þeir töpuðu fyrir Króötum í riðlakeppninni og því með tvö stig í milliriðlinum. Norðmenn eru hins vegar með fullt hús stiga.

Ef Noregur og Króatía verða með sex stig að loknum þessum keppnisdegi er nánast ekkert sem getur komið í veg fyrir að liðin komist ekki áfram í undanúrslitin. Bæði lið þyrftu því að tapa leikjum sínum gegn Slóveníu og Svartfjallalandi og það helst nokkuð stórt.

Pólverjar hafa þegar hafið sálfræðihernað með því að gagnrýna Norðmenn fyrir að standa illa að mótshaldinu í Noregi.

Milliriðill 2

15.20 Þýskaland - Ísland


Ef Þjóðverjar ætla sér að komast í undanúrslit verða þeir að vinna Íslendinga í dag. Ef Íslendingar ætla sér meiri og stærri hluti en strákarnir hafa sýnt hingað til verða þeir að vinna Þjóðverja.

Það er því allt undir í þessum leik fyrir bæði lið.



17.30 Frakkland - Spánn


Án efa einn athyglisverðasti leikur dagsins því þarna mætast tvö gríðarlega sterk lið. Frakkar sluppu naumlega við niðurlægingu í fyrsta leik gegn Slóvökum en Spánverjar voru niðurlægðir af Ungverjum á fyrsta keppnisdegi.

Síðan þá hafa þessar þjóðir verið á beinu brautinni og unnið sína leiki örugglega. Spánverjar unnu til að mynda heimsmeistara Þýskalands með átta marka mun í lokaumferð riðlakeppninnar.

Frakkar rúlluðu yfir bæði Svíþjóð og Ísland eins og allir ættu að vita og sýndu að þeir eru til alls líklegir á mótinu.

Vinni Frakkar eru þeir komnir með annan fótinn í undanúrslitin en ef Spánverjar vinna má búast við því að riðillinn verði galopinn.

19.30 Ungverjaland - Svíþjóð

Ungverjar þurfa að sýna og sanna að sigurinn á Spáni á fyrsta keppnisdegi er engin tilviljun. Þetta er einnig algjör lykilleikur í baráttu beggja liða um að komast í undankeppni Ólympíuleikanna.

Svíar eru að keppa á sínu fyrsta stórmóti í þrjú ár og gáfu tóninn með öruggum sigri á Íslandi á fyrsta keppnisdegi. Þeir þurfa líka að sýna mátt sinn og megin og sýna öðrum þjóðum að þeir séu jafn sterkir og þeir sjálfir vilja meina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×