Handbolti

Mikið undir í leikjum dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ivano Balic og félagar í landsliði Króatíu eiga mikilvægan leik fyrir höndum í dag.
Ivano Balic og félagar í landsliði Króatíu eiga mikilvægan leik fyrir höndum í dag. Nordic Photos / AFP

Vísir tekur hér saman hvað er undir í leikjum dagsins á Evrópumeistaramótinu í handbolta sem fer fram í Noregi.

Lokaumferð milliriðlakeppninnar fer fram í dag og ræðst þá hvaða lið komast áfram í undanúrslit, hvaða lið keppa um 5.-6. sætið og svo 7.-8. sætið.

Ísland á möguleika á að komast í í leikinn um 7.-8. sætið ef liðið vinnur Spán í dag og Frakkar tapa ekki fyrir Ungverjum.

Milliriðill 1:

15.15 Pólland - Svartfjallaland

Þetta er sá leikur sem skiptir hvað minnstu máli í dag. Svartfjallaland hefur ekki enn unnið leik í keppninni og á ekki möguleika að lyfta sér upp úr botnsæti milliriðilsins með sigri í dag.

Pólverjar eru sömuleiðis búnir að missa af sæti í undanúrslitunum. Þeir eru einnig búnir að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna þar sem liðið lenti í öðru sæti á HM í Þýskalandi í fyrra. Það er því í raun að engu að keppa fyrir þá nema stoltið og vonin um að fá að spila um helgina um annað hvort fimmta eða sjöunda sætið.

17.15 Slóvenía - Danmörk

Gríðarlega mikilvægur leikur. Danir tryggja sér sigur í riðlinum með sigri en gætu með tapi dottið niður í þriðja sætið.

Slóvenar eiga að sama skapi enn möguleika á að komast áfram með sigri en verða þá að treysta á hagstæð úrslit úr leik Noregs og Króatíu.

19.15 Króatía - Noregur

Alíka mikilvægur leikur. Báðar þjóðir geta komist áfram með sigri í dag. Króötum dugir þó jafntefli.

Heimamenn fóru af stað af miklum krafti í mótinu og unnu fyrstu fjóra leikina. Þá kom jafntefli við Pólverja og svo tap fyrir Slóvenum í gær. Um leið misstu þeir einn sinn besta leikmann, Frank Löke, í meiðsli.

Það er því komið að ögurstundu hjá Norðmönnum.

Milliriðill 2:

14.20 Spánn - Ísland

Hvorugt lið á möguleika á sæti í undanúrslitunum. Spánverjar eru þegar búnir að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna og eru því aðeins að spila upp á stoltið og möguleikann að spila um fimmta eða sjöunda sætið.

Íslendingar eru enn að spila upp á sæti í undankeppni ÓL. Sigur í dag gæti fleytt liðinu upp í fjórða sæti riðilsins, ef Frakkar tapa ekki fyrir Ungverjum.

Þar er sá möguleiki fyrir hendi að spila við Norðmenn um 7. sætið á mótinu og um leið um sæti í undankeppni ÓL.

16.20 Ungverjaland - Frakkland

Sæti í undankeppni ÓL er undir hjá Ungverjum og leggja þeir því ofurkapp á að vinna Frakka í dag sem hafa aftur á móti efni á að hvíla sína sterkustu leikmenn og tapa leiknum.

Sigur gæti fleytt Ungverjum í þriðja sæti riðilsins ef Svíar vinna Þjóðverja.

18.15 Þýskaland - Svíþjóð

Hreinn úrslitaleikur um hvort liðið nái öðru sætinu í riðlinum og þar með sæti í undanúrslitunum. Svíþjóð dugir jafntefli í leiknum. Flóknara er það ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×