Handbolti

Danir í heljargreipum fyrir leiki dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Munu Danir fagna eftir viðureignir dagsins?
Munu Danir fagna eftir viðureignir dagsins? Nordic Photos / Bongarts

Það ríkir gríðarleg spenna í 1. milliriðli á EM í handbolta þar sem fjögur lið eiga öll möguleika á því að komast áfram í undanúrslitin.

Danir hafa farið á kostum í milliriðlakeppninni og unnið Króata og Pólverja, bæði með tíu marka mun.

En þrátt fyrir það er það langt í frá öruggt að Danir komist áfram í undanúrslitin þó svo að liðið standi best fyrir leiki dagsins.

Hérna eru mögulegar niðurstöður riðlakeppninnar eftir því hvernig leikir dagsins fara.

Danmörk vinnur Slóveníu:

Danir tryggja sér efsta sætið í milliriðlinum og mæta annað hvort Þjóðverjum eða Svíum í undanúrslitum.

Danmörk og Slóvenía gera jafntefli:

Danir lenda í að minnsta kosti í öðru sæti í riðlinum, annað hvort á eftir Noregi eða Króatíu. Ef þær þjóðir gera einnig jafntefli vinna Danir riðilinn. Ef Danir lenda í öðru sæti í riðlinum mæta þeir Frökkum í undanúrslitum.

Danmörk tapar fyrir Slóveníu og Króatía vinnur Noreg:

Danir komast ekki áfram í undanúrslitin. Króatar vinna riðilinn og Danir og Slóvenar ljúka bæði keppni með sex stig í milliriðlinum. Slóvenar komast áfram á betri árangri í innbyrðisviðureign liðanna.

Danmörk tapar fyrir Slóveníu og Króatía og Noregur gera jafntefli:

Danir komast ekki áfram í undanúrslitin. Króatía vinnur riðilinn og Slóvenía, Danmörk og Noregur verða öll með sex stig. Slóvenía stendur þó best í innbyrðisviðureignum og komast þannig í undanúrslitin.

Danmörk tapar fyrir Slóveníu og Noregur vinnur Króatíu:

Norðmenn vinna riðilinn. Slóvenía, Króatía og Danmörk verða þá öll með sex stig. Danmörk hefur þá í þeirri stöðu efni á að tapa með sjö marka mun fyrir Slóveníu. Vinni Slóvenar með átta mörkum komast þeir áfram í undanúrslitin og Danir og Króatar sitja eftir. Króatar komast hvort eð er ekki áfram þar sem liðið er með slakasta árangurinn í innbyrðis viðureignum liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×