Fastir pennar

Ávallt viðbúin

Jónína Michaelsdóttir skrifar

Í tengslum við borgarstjórnarmálin í Reykjavík hafa margir slegið um sig með ávirðingum og lýsingarorðum sem allajafna eru notuð sparlega, en þegar gripið er til þeirra er dómgreindinni yfirleitt gefið frí. Við blasir að fólkið sem býður fram vit sitt og vilja til að stjórna málefnum samborgara sinna í Reykjavík hefur takmarkaða stjórn á tilfinningum sínum og skapsmunum, og finnst ekkert athugavert við það.

Það er óneitanlega athyglisvert hvað umskiptin í borginni komu sitjandi borgarstjórn gjörsamlega í opna skjöldu, bæði hundrað daga stjórninni og þeirri sem fyrir var og er mætt aftur til leiks. Í báðum tilvikum virtist full þörf á áfallahjálp fyrir þetta fólk, en áfallið var þó sýnu meira núna í janúar og uppnámið eftir því. Menn neituðu að trúa því að þetta gæti gerst. Var ógurlega misboðið og fannst svona spilling nánast handan við hugmyndaflugið.

Í því samhengi kemur mér í hug spjall tveggja kvenna sem bjuggu í sama húsi fyrir tveimur áratugum og kom ágætlega saman. Yngri konan kom eitt sinn til þeirrar eldri í miklu uppnámi. Sagði að eiginmaðurinn væri farinn að halda framhjá henni og hún væri alveg niðurbrotin. Þessu hefði hún síst af öllu átt von á!

- Við hverju bjóstu? spurði eldri konan. „Þú varst sjálf með þessum manni í langan tíma meðan hann var kvæntur annarri konu!"

Þetta þótti þeirri yngri ekki sambærilegt. Ekki frekar en vandlæturunum sem lýsa eigin valdafíkn sem dyggð og hugsjónum en annarra sem smán og sölumennsku.

Í meðbyr og mótlæti

Þátttaka í stjórnmálum er lærdómsrík, skemmtileg og gefandi þegar best lætur, en pólitíkin er líka bæði flókin og viðsjál. Þeir sem halda að hún sé fugl í hendi þegar einhverjum áfanga er náð, verða yfirleitt reynslunni ríkari fyrr en þeir kæra sig um. Geti þeir sem veljast til forystu ekki haldið ró sinni og reisn bæði í meðbyr og mótlæti ættu þeir að velja sér annan vettvang. Þessi almenningur, sem allir segjast vera málsvarar fyrir, á ekki að þurfa að vera miður sín heima í stofu vegna augljósrar óhamingju, vanstillingar og vonbrigða kjörinna fulltrúa, þegar eitthvað bjátar á.

Ætli menn að starfa í stjórnmálum þurfa þeir að vera eins og skátarnir: ávallt viðbúnir. Viðbúnir hverju sem er. Óvæntu áfalli, tækifærum sem opnast, skyndilegum breytingum og málum sem þola ekki bið. Þeir eiga að vera læsir á umhverfi sitt, vita hvert þeir eru að fara, og hvers vegna. Vinna skoðunum sínum og hugsjónum fylgi og reyna að leiða almenningsálitið, ekki elta það.

Við erum svo lánsöm að eiga vel menntað fólk á öllum

sviðum og það er mikill fengur að því að fá það til starfa í stjórnmálum. Hins vegar er ekki hægt að mennta sig til að verða almennilegur stjórnmálamaður. Menn verða að vaxa upp í það og það er ekki hægt að stytta sér leið.

Gáfaðastir, bestir og duglegastir

Þegar ég gekk til liðs við stjórnmálahreyfingu fyrir löngu síðan skoðaði ég einnig stefnuskrár og baráttumál annarra flokka. Þegar fram liðu stundir fór ég að veita því athygli hvernig málflutningur fólks í stjórnmálum endurspeglar persónulegt mat þess á eigin hreyfingu og þeim sem þar eiga samleið. Með hæfilegri einföldun má segja að það sé þannig: Vinstri menn halda að þeir séu gáfaðri en aðrir, kratar halda að þeir séu betri en aðrir, framsókn heldur að hún sé víðsýnni en aðrir og hægri menn halda að þeir séu duglegri en aðrir.

Vinstri menn hafa lengst af trúað því að skapandi hugsun í menningu og listum væri óhugsandi hjá öðrum en þeim sjálfum og nú bregðast þeir við með þjósti ef hægri menn tala um umhverfisvernd. Það sé ómark og uppgerð. Kratar telja að þeir hafi meiri samkennd með lítilmagnanum en aðrir og hafi fundið upp samhjálpina. Framsókn hefur jafnan lagt áherslu á að hún gæti unnið til hægri og vinstri og væri opin í báða enda. Hægri menn telja að engum sé treystandi til að reka fyrirtæki og stjórna landinu nema þeim.

Allt er þetta náttúrlega tóm ímyndun og sprottin úr félagskerfum þar sem fólk sem velur sömu leið talar hvert upp í annað og fer smám saman að villast á skoðunum og staðreyndum. Og auðvitað finnst öllum þeir vera þetta allt í senn: Duglegastir, víðsýnastir, gáfaðastir og bestir.

Nema hvað!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×