Handbolti

Heiðmar og félagar áfram í bikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robertas Pauzuolis og Heiðmar Felixsson í leik með Burgdorf.
Robertas Pauzuolis og Heiðmar Felixsson í leik með Burgdorf. Nordic Photos / Bongarts

Heiðmar Felixsson og félagar í Hannover-Burgdorf gerðu sér lítið fyrir og slógu út úrvalsdeildarliðið Wetzlar í þýsku bikarkeppninni í gær.

Burgdorf náði fimm marka forystu seint í síðari hálfleik og sá munur hélst fram í leikhlé, 12-7. Wetzlar skoraði þá fimm mörk í röð, jafnaði leikinn og náði svo þriggja marka forystu þegar ellefu mínútur voru til leiksloka, 18-15.

Heiðmar og félagar létu ekki setjast og minnkuðu muninn í eitt mark í stöðunni 19-18. Þá komu þrjú mörk í röð hjá Burgdorf og dugði það til að skapa tveggja marka sigur, 24-22.

Heiðmar skoraði sex mörk í leiknum og Robertas Pauzuolis, fyrrum leikmaður Hauka, skoraði fjögur mörk.

Burgdorf leikur í norðurriðli 1. deildarinnar í Þýskalandi, rétt eins og Empor Rostock sem tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen í sömu keppni í gær.

Rostock var reyndar með fjögurra marka forystu í hálfleik, 17-14, og náði mest fimm marka forystu í síðari hálfleik. En þá bitu leikmenn Löwen í skjaldarrendur og innbyrtu að lokum tveggja marka sigur, 33-31.

Elías Már Halldórsson átti fínan leik fyrir Rostock og skoraði fimm mörk í gær.

En það var annað lið í 1. deildinni sem sló út úrvalsdeildarlið í gær þegar Düsseldorf vann sjö marka sigur á Lübbecke.

Leikurinn var nokkuð jafn lengst af en leikmenn Düsseldorf stungu svo af undir lokin. Birkir Ívar Guðmundsson stóð í marki Lübbecke og Þórir Ólafsson náði ekki að komast á blað í leiknum.

Að síðustu lagði Hamburg lið Grosswallstadt í eina úrvalsdeildarslag gærkvöldsins, 31-27.

Þessi lið eru komin áfram í fjórðungsúrslit þýsku bikarkeppninnar:

THW Kiel

TSG Friesenheim

HSG Nordhorn

VfL Gummersbach

Rhein-Neckar Löwen

TSV Hannover-Burgdorf

HSG Düsseldorf

Hamburger SV




Fleiri fréttir

Sjá meira


×